Útskrifa sama dag og Eurovision

Verzlunarskóli Íslands.
Verzlunarskóli Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkrir framhaldsskólar hér á landi munu útskrifa nemendur laugardaginn 23. maí nk. eða sama dag og Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, fer fram. Verzlunarskóli Íslands er í þessum hópi, en útskriftin mun fara fram kl. 13 en ekki kl. 14 eins og undanfarin ár.

Sigrún Dís Hauksdóttir, fráfarandi forseti nemendafélags skólans, segir nemendur þó ekki ósátta við að útskriftin fari fram þennan dag.

„Þau sem hafa áhuga á Eurovision og eru að halda veisluna í heimahúsi eða við aðstæður þar sem er í boði að vera með sjónvarp ætla bara að kveikja á keppninni í útskriftinni,“ segir Sigrún og bætir við að nemendum finnist ekki verra að Eurovision stemning myndist í veislunni.

Sigrún segir aðra ætla að halda sína veislu fyrr og safnast saman hjá vinum eftir veisluna. Það komi sér því vel að útskriftin er haldin einni klukkustund fyrr en vanalega fyrir þá nemendur sem vilja halda kaffiboð frekar en veislu um kvöldið. „Þá er líka meiri tími til að koma sér á milli staða og minna stress, segir hún.

Sigrún segir óvenju mikla stemningu hafa myndast í kringum keppnina í ár, þar sem margir fyrrverandi Verzlingar koma að laginu.

„Þetta er það ungt fólk að krakkarnir kannast við þau. Til dæmis var María Ólafs ennþá í skólanum þegar elstu árgangarnir byrjuðu í Verzló og hún var þekkt sem litla stelpan með stóru röddina,“ segir Sigrún og heldur áfram. „Stop Wait Go hafa líka aðstoðað nemendur við að vinna nánast öll lög sem skólinn gefur út svo þeir eru í miklu uppáhaldi nemenda.“

Sigrún Dís Hauksdóttir, fráfarandi forseti nemendafélags Verzlunarskóla Íslands.
Sigrún Dís Hauksdóttir, fráfarandi forseti nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert