Mikil röskun á vöruflutningum

Vöruflutningar á landi utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja stöðvast í dag …
Vöruflutningar á landi utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja stöðvast í dag og á morgun. Ljósmynd/Atli Mar Hafsteinsson

Vöruflutningar á landi utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja stöðvast meðan á tveggja sólarhringa verkfalli verkalýðsfélaga Starfsgreinasambandsins stendur, sem hófst á miðnætti í nótt.

Áhrifin eru því mikil á þjónustu Landflutninga Samskipa skv. upplýsingum Önnu Guðnýjar Aradóttur, forstöðumanns markaðs- og samskiptadeildar Samskipa. Verkfallið hefur engin teljandi áhrif á innflutning og útflutning hjá Samskipum en þau eru hins vegar mikil á starfsemi félagsins á landsbyggðinni.

Búast er við að verkfallið valdi umtalsverðum truflunum á landflutningum á Norðausturlandi og Austurlandi en minni truflunum nær höfuðborginni. Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir verkföllin úti á landi setja strik í reikninginn vegna flutninga innanlands og þau leiði til þess að hægja muni á öllu „en við höfum verið að vinna að því að viðskiptavinir okkar verði fyrir sem minnstum óþægindum,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert