Kvarta undan hraða hjólreiðamanna

Hjólreiðamaður. Myndin er úr safni.
Hjólreiðamaður. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn

Í vor hafa lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist ábendingar um ýmislegt sem má betur fara hjá hjólreiðamönnum. Þar undir falla kvartanir, og ekki síður áhyggjur, af þeim sem þykja fara alltof hratt. Lögreglan brýnir fyrir hjólreiðamönnum, eins og öðrum vegfarendum, að fara varlega og sýna tillitsemi.

„Nú þegar reiðhjólum fer óðum fjölgandi í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu með hækkandi sól, er full ástæða til að hvetja reiðhjólamenn, líkt og aðra vegfarendur, til að fara varlega og sýna tillitssemi í hvívetna,“ segir í færslu lögreglunnar á Facebook. „Hið góða átak Hjólað í vinnuna hófst enn fremur formlega í gær, en viðbúið er að margir taki þátt. Það er því ekki að ástæðulausu sem lögreglan viðhefur fyrrnefnd varnaðarorð, en í vor hafa borist ábendingar um ýmislegt, sem má betur fara hjá reiðhjólamönnum. Þar undir falla kvartanir, og ekki síður áhyggjur, af þeim sem þykja fara alltof hratt.“

Lögreglan segir að göngu- og hjólreiðastígar, m.a. í Fossvogi, hafa sérstaklega verið nefndir í þessu sambandi, en einn tilkynnandi sagði suma hjólreiðamenn fara um þá á ógnarhraða og stefna bæði sjálfum sér og öðrum vegfarendum í stórhættu. „Lögreglan biður þá hjólreiðamenn sem um er rætt að taka þetta til sín, hjóla hægar og sýna öðrum vegfarendum meiri tillitssemi.“

Á síðasta ári bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hátt í eitt hundrað tilkynningar um reiðhjólaslys í umdæminu. Í næstum helmingi tilvika áttu slysin sér stað þegar bifreið var ekið á hjólreiðamann, en af öðrum tilvikum má nefna slys sem urðu þegar reiðhjól rákust saman, eða þegar hjólreiðamaður ók á gangandi vegfaranda. Um þriðjungur allra reiðhjólaslysa var samkvæmt skráningu flokkað sem fall af reiðhjóli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert