Stappað út úr dyrum moskunnar

Fyrsta moskan í sögulega hluta Feneyja var opnuð á Feneyjatvíæringnum …
Fyrsta moskan í sögulega hluta Feneyja var opnuð á Feneyjatvíæringnum í dag. Ljósmynd/Bjarni Grímsson

Framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum, moska í gamalli kirkju, var opnað fyrir gestum í morgun og að sögn Bjargar Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, hafa móttökurnar verið ótrúlega góðar. Stappað hafi verið út úr dyrum af fólki í moskunni í allan dag.

Borgaryfirvöld í Feneyjum höfðu lýst áhyggjum af því að öryggisógn gæti stafað af verkinu. Það er moska sem búið er að innrétta í gamla kirkju í sögulega hluta Feneyja. Óttinn var að verkið gæti vakið reiði öfgatrúarmanna. Björg segir að aðstandendur verksins séu í góðu samstarfi við borgaryfirvöld og það muni halda áfram. Hefðbundin öryggisgæsla sé við verkið og hún hafi ekki orðið var við neikvæð viðbrögð, þvert á móti.

„Viðtökurnar hafa verið ótrúlega góðar. Við höfum aldrei fengið eins mikla pressu og í dag. Þetta hefur verið alveg hreint magnað. Endalaust af fjölmiðlafólki, fólki úr listaheiminum og öðrum að skoða. Það er búið að vera alveg stappað út úr dyrum í allan dag. Það eru allir í himnasælu með daginn í dag,“ segir Björg í samtali við mbl.is.

Það er svissneski listamaðurinn Cristoph Büchel sem setti upp raunverulega mosku í íslenska skálanum, í samvinnu við samfélög múslima í Feneyjum og á Íslandi, með upplýsingamiðstöð þar sem fyrirhugað er að vera með allrahanda fræðslu og kennslu, meðal annars um íslam, tungumál og ólíka siði, þá sjö mánuði sem tvíæringurinn stendur.

Fyrri frétt mbl.is: Munnlegt leyfi fyrir moskunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert