Dynjandi í klakaböndum

Hákon Ásgeirsson svæðislandvörður á sunnaverður Vestfjörðum fangaði magnaða mynd af Dynjanda í klakaböndum þegar hann heimsótti fossinn í gær. Vegurinn að Dynjanda var opnaður fyrir helgi, en Hákon segir heiðina ekki færa bílum á sumardekkjum.

„Þetta var sérlega snjóþungur vetur,“ segir Hákon um aðstæður uppi á heiðum. Hann segir að hætt sé að snjóa en enn sé frost og þá skefur í veginn. Hann segir að þegar hann var við fossinn í gær, hafi líklega verið um 2 stiga frost á svæðinu.

Hann segist ekki muna eftir jafnmiklum klaka í fossinum í maímánuði.

„Það er nú alltaf einhver klaki í honum á þessum tíma en ég man ekki eftir því að það hafi verið svona mikill klaki í honum í maí,“ segir Hákon. „Og það eru átta fossar þarna í ánni fyrir neðan Dynjanda og þeir eru allir frosnir.“

Eins og sjá má á annrri mynd sem Hákon tók eru einbreið snjógöng á köflum á heiðinni. Spurður að því hvort fólki sé óhætt að leggja leið sína að fossinum fyrst búið er að opna veginn, segist hann ekki ráðleggja fólki að leggja á heiðina á sumardekkjum.

Í gær óku hann og ferðafélagar hans fram á bíl á sumardekkjum sem sat fastur.

„Þegar við komum að honum var hann búinn að vera þarna í tvo tíma. Og það komst enginn afturábak né áfram útaf þessum bíl. En svo tókst okkur að ýta honum og við sendum hann bara tilbaka niður af heiðinni. Þannig að nei, ég myndi ekki ráðleggja fólki að fara þarna á sumardekkjunum.“

Myndirnar birtust fyrst á Facebook-síðu Umhverfisstofnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert