Felldu tillögu um að taka ramma af dagskrá

Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, og Katrín Júlíusdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, …
Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, og Katrín Júlíusdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, voru á meðal þeirra þingmanna sem lögðu dagskrárbreytinguna til. mbl.is/Eggert

Tillaga þriggja þingmanna stjórnarandstöðunnar um að taka rammaáætlun út af dagskrá Alþingis í dag var felld í atkvæðagreiðslu nú fyrir stundu. Stjórnarandstæðingar töluðu um valdbeitingu og líktu breytingatillögum við rammaáætlun við það að virkja ætti Gullfoss.

Breytingatillaga atvinnuveganefndar um að fjölga virkjunarkostum í rammaáætlun var á dagskrá þingfundar í dag en það vakti litla ánægju stjórnarandstæðinga sem kölluðu málið stærsta deilumál kjörtímabilsins. Því lögðu nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar fram tillögu um breytingu á dagskrá þingsins til þess að taka rammaáætlun af henni.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, líkti tillögu atvinnuveganefndar um að bæta við virkjunarkostum án þess að fagleg umfjöllun hafi farið fram um þá við það að tilkynnt væri að virkja ætti Gullfoss. Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að með tillögunni væri verið að færa sundurlyndisfjanda inn í þingsalinn. Fjöldi annarra stjórnarandstæðinga gerðu grein fyrir atkvæði sínu og deildu hart á stjórnarmeirihlutann.

Tillagan var felld með 24 atkvæðum gegn 16. Enginn stjórnarþingmaður gerði grein fyrir atkvæði sínu þrátt fyrir að stjórnarandstæðingar hafi kallað eftir því.

Umdeildasta sprengiefni vetrarins

Áður hafði Steingrímu J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýnt stjórnleysi ríkisstjórnarinnar og þingsins. Þegar aðeins átta dagar væru eftir af þingfundum samkvæmt starfsáætlun þingsins væru 20-30 frumvörp tilbúin til umræðu og ágætis samstaða ríkti um sem hægt væri að afgreiða fyrir þinglok.

„Þá ber svo við að sett er á dagskrá umdeildasta sprengiefni vetrarins, handaflstillaga háttvirts þingmanns Jóns Gunnarssonar um valdbeitinguna gagnvart rammaáætlun. Eins og við þurfum nú á frekari ófriði að halda, virðulegur forseti,“ sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert