Brotist inn í pósthólf Leoncie

Leoncie. Stutt í næstu plötu.
Leoncie. Stutt í næstu plötu.

Tónlistarkonan Leoncie vaknaði upp við vondan draum fyrir rúmri viku. Brotist hafði verið inn í pósthólf hennar og vinum og vandamönnum sendur tilfinningaríkur póstur um fjárstuðning. Leoncie segist alltaf hafa staðið á eigin fótum, þurfi engan fjárstuðning og setur stefnuna á nýja plötu. 

„Þann 11. maí varð ég fyrst vör við að nígerískir glæpamenn höfðu brotist inn á pósthólfið mitt, musicleoncie@gmail.com og sent póst undir mínu nafni. Þeir höfðu haft samband við fullt af fólki því ég tala við fullt af fólki á hverjum degi. Systkini mín, kunningjar og allir sem ég þekki fengu póst þar sem ég átti að vera biðja um pening. Þeir voru að biðja um töluverða summu af fólki og það var áfall,“ segir söngkonan.

Hún segir að hún sé ekki vön því að biðja um pening, það hafi aldrei gerst og sé ekki að fara gerast. „Þeir voru að biðja um pening undir fölsku flaggi og sögðu að ég ætlaði að borga til baka. Ég ætla ekki að borga það sem ég hef ekki beðið um. Á allri minni ævi, sérstaklega síðan ég flutti til Íslands, hef ég aldrei beðið um pening. Leoncie stendur á alfarið á eigin fótum. Ég hef aldrei fengið ríkisstyrk eða listamannalaun. Af hverju skyldi það vera?“ spyr hún hissa.

Leoncie segir að henni hafi liðið illa yfir því að brotist hafi verið inn á reikning hennar og það hafi haft áhrif á hana. En hún hafi verið staðráðin í því að láta ekki það illa sigra. „Auðvitað hefur svona áhrif á mann. Allir sem þekkja mig vita að ég myndi ekki segja svona. En ég var fljót að breyta og fá mér nýtt póstfang, lionesseleoncie@gmail.com og ég hef verið að fá pósta að nýju. Hitt, sem var brotist inn í, er ekki lengur virkt. Mig grunar að þetta séu einhverjir íslenskir tónlistarmenn sem tengjast nígerískum glæpamönnum sem gerðu mér þetta.“

Bjart þrátt fyrir svartnættið

Þrátt fyrir þetta bakslag segir Leoncie að það sé bjart framundan hjá sér. Ný plata og myndbönd meðal annars. „Ég er að taka upp plötu í Bandaríkjunum og Kanada. Það er ný plata væntanleg og ég lofa að hún verður rosaleg. Ég er líka að gera þrjú tónlistarmyndbönd sem tekin verða upp bæði á íslensku og á ensku. Eitt geri ég í Ástralíu. Þar á ég frændur og það verður geggjað að taka upp þar.“

Stórfjölskylda Leoncie býr í Kanada og segir hún að upptökuverin þar í landi séu frábær. „Ég er ekkert að spá í hvað öðrum finnst um mína tónlist, ég geri það sem mér sýnist. Mér er alveg sama um álit annarra. Það eru margir aðdáendur sem elska mig, ekki bara íslenskir því ég er vinsæl um allan heim. Þeir gera erfiðið þess virði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert