Formenn og þingflokkar funda

Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis
Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis

Þingfundi var frestað nú í hádeginu og boðað til fundar formanna þingflokkanna á Alþingi. Fyrsta dagskrármál dagsins hefur enn ekki komist á dagskrá vegna deilna um breytingar á rammaáætlun. Eftir þingflokksformannafundinn munu þingflokkarnir funda til kl. 15.

Til stóð að hefja þingfund sem hófst kl. 10 í morgun með umræðum um störf þingsins og síðan sérstakri umræðu um húsnæðismál. Þriðja mál á dagskrá voru svo breytingar sem meirihluti atvinnuveganefndar leggur til við þingsályktunartillögu umhverfisráðherra um Hvammsvirkjun.

Ekkert þessara mála hefur hins vegar komið til umræðu í morgun. Stjórnarandstaðan lagði fram tillögu um að taka breytingar á rammaáætlun af dagskrá þingsins við upphaf þingfundarins. Sú tillaga var felld eftir umræður sem stóðu í klukkustund. Í kjölfarið komu stjórnarandstæðingar í pontu undir liðnum fundarstjórn forseta til að krefjast þess að málið væri tekið af dagskrá.

Í kjölfarið bar forseti Alþingis fram tillögu um kvöldfund og stóðu umræður um þá tillögu þar til þingfundi var frestað um kl. 12:20. Tillagan var samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert