„Það er traustið sem vantar“

Dr. Katrín Ólafsdóttir á fundinum í Iðnó í dag.
Dr. Katrín Ólafsdóttir á fundinum í Iðnó í dag. mbl.is/Eggert

„Það er traustið sem vantar. Við erum í eins konar traustkrísu. Traustið á milli samningsaðila er ekki fyrir hendi,“ sagði Dr. Katrín Ólafsdóttir, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík og doktor í vinnumarkaðshagfræði frá Cornell háskóla, á borgarafundi um yfirstandandi kjaradeilur í Iðnó í dag.

Hópur fólks, sem tekið hefur sig saman undir kjörorðinu Aukum kaupmáttinn, stóð fyrir fundinum til að ræða meðal annars hvað deiluaðilar geti lært af sögunni.

Katrín sagði að kjarasamningarnir, sem um er rætt, byggðust á þremur aðilum, stéttarfélögunum, atvinnurekendum og ríkinu.

„Það skiptir máli að samskipti eigi sér stað þarna á milli, að þarna ríki traust og samtal.

Þetta samtal á sér ekki stað í dag. Fyrir ári síðan var lagt af stað í vinnu við það að taka upp norræna módelið í einhvers konar mynd hér á landi. Þetta var mjög jákvæð þróun og menn voru áhugasamir, en hvað gerðist?“ spurði Katrín.

Traustið farið

Hún benti í fyrsta lagi á að miklar arðgreiðslur fyrirtækja á sama tíma og ekki sé rætt við aðila vinnumarkaðarins. „Þannig brotnaði þetta samtal á milli stéttarfélaga og atvinnurekenda.

Það sem líka gerðist var að stjórnvöld styttu tímabil atvinnuleysisbóta án þess að hafa samráð við stétttarfélögin þannig að samtalið á milli mili stéttarfélaganna og ríkisins varð að engu.“

Í þriðja lagi hefði ríkið samið við lækna sem gerði það að verkum að traustið á milli ríkisins og atvinnurekenda fór.

Katrín benti á að í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hefði bankarnir og stjórnmálamenn tapað trausti almennings. Nú værum við í samskonar traustkrísu.

„Miðað við stöðuna eins og hún er í dag, þar sem enginn er að tala saman, þá náum við aldrei bestu lausn. Það er ekkert traust á milli aðila og allir eru að reyna að vinna hver í sínu horni. Við megum ekki gleyma því hve dýrmætt traustið er,“ sagði Katrín.

Breytt hugsun með þjóðarsáttinni

Hún rifjaði upp að í gamla daga hafi nafnlaun yfirleitt verið hækkuð ríflega og gengi krónunnar í kjölfarið fellt með þeim afleiðingum að verðbólgan fór á skrið.

„Við breyttum þessari hugsun í þjóðarsáttarsamningunum. Þá viðurkenndu menn að það væri kaupmátturinn sem skipti máli en ekki kröfurnar.

Það sem hefur líka gerst síðan þá er að peningastefnunni hefur verið breytt. Nú er ekki hægt að fara í þennan gamla leik - það er ekki í boði lengur.“

Katrín sagði að afleiðingar mikilla nafnlaunahækkana, eins og verkalýðsfélögin hafa farið fram á, yrðu þær að kaupmáttur yrði meiri í fyrstu, verðbólga myndi hækka, vextir yrðu hærri og skuldir heimilanna að sama skapi. „Þetta kemur fram í minni fjárfestingu og minni hagvexti,“ sagði Katrín og bætti við:

„Er það þetta sem við viljum?“ 

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert