Sr. Friðrikshlaupið haldið í annað sinn

Frá hlaupinu í fyrra.
Frá hlaupinu í fyrra. mbl.is/Eggert

Sr. Friðrikshlaupið verður haldið í annað sinn næsta mánudag, 25. maí, klukkan 19. Hlaupið er fimm kílómetrar og hefst og endar leiðin við höfuðstöðvar KFUM og KFUK á Íslandi að Holtavegi 28.

Hlaupið dregur nafn sitt af stofnanda KFUM og KFUK, Sr. Friðriki Friðrikssyni, sem einnig stofnaði íþróttafélögin Hauka og Val. Friðrik fæddist þennan sama dag, 25. maí, árið 1868 og því vel við hæfi að fagna deginum á þennan hátt, en Friðrik helgaði líf sitt æskulýðsstarfi, að því er segir í fréttatilkynningu.

Bára Sigurjónsdóttir, einn af skipuleggjendum hlaupsins, segir að eitt af markmiðum KFUM og KFUK á Íslandi sé að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð einstaklingsins en merki félagsins, sem er þríhyrningur, undirstriki það. Tákna hliðar hans líkama, sál og anda.

„Sr. Friðrikshlaupið er lítil hugmynd sem kviknaði í byrjun árs 2014 og fannst okkur sem stóðum að hlaupinu í fyrra það til fyrirmyndar og takast vel til. Auk þess fundum við fyrir mikilli ánægju meðal þátttakenda og ákváðum því um leið og hlaupinu lauk að taka stefnuna á næsta ár. Hingað erum við komin og hvetjum fólk til að fjölmenna í hlaupið,“ segir Bára.

Þátttaka í Sr. Friðrikshlaupinu kostar 1.000 kr. fyrir fullorðna en 500 kr. fyrir börn. Heimilt er að kaupa fleiri en einn þátttökuseðil til styrktar æskulýðsstarfi KFUM og KFUK á Íslandi og aukast þar með líkurnar á útdráttarverðlaunum í lok hlaupsins. Veitt verða verðlaun fyrir efstu þrjú sæti karla og kvenna óháð aldursflokki. Öll börn fá verðlaunapening.

Verðlaunaafhending fer fram eftir að allir keppendur hafa skilað sér í mark. Skráning í hlaupið hefst klukkutíma fyrir hlaup, kl. 18:00, að Holtavegi 28. Notast verður við tímaflögur þetta árið sem afhendast við skráningu og skal skila til brautarvarða í lok hlaupsins.

Nánari upplýsingar má meðal annars finna á kfum.is og fésbókarviðburði hlaupsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert