Efast um hugmyndir um sameiningu

123 nemendur voru brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í menningarhúsinu …
123 nemendur voru brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í menningarhúsinu Hofi í dag. Ljósmynd/VMA

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, hefur efasemdir um hugmyndir mennta- og menningarmálaráðuneytisins um sameiningu framhaldsskóla á Norðurlandi eystra en hann gerði málið að umfjöllunarefni sínu við brautskráningu 123 nema í menningarhúsinu Hofi á Akureyri í dag.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu eru nú uppi áform um það í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu að sameina fimm framhaldsskóla á Norðurlandi eystra. Annars vegar Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Tröllaskaga og Framhaldsskólann á Húsavík, og hins vegar Verkmenntaskólann á Akureyri og Framhaldsskólann á Laugum,“ sagði hann og benti á að staðreyndin væri sú að nemendum á framhaldsskólastigi hafi verið að fækka á undanförnum þremur árum. „Og ef spár ganga eftir mun þeim halda áfram að fækka fram til ársins 2020. Aðalástæðurnar eru fækkun í árgöngum og stytting náms til stúdentsprófs,“ bætti hann við.

Hann telur aftur á móti marga möguleika felast í auknu samstarfi sem hægt sé að koma á með bættum samgöngum og á sviði fjar- og dreifikennslu. „Einnig ætti að vera auðvelt að koma á staðbundnu lotunámi í verklegum greinum hér í VMA sem skipulagt yrði fyrir nemendur sem búa hvort sem er austur í Þingeyjarsýslum eða fyrir vestan okkur og norðan. Dreifnám af því tagi hefur verið að ryðja sér til rúms bæði hér á landi og erlendis,“ sagði hann í ræðu sinni og kallaði þar eftir því að skólar og sveitastjórnir þyrftu að setjast niður og ræða þessa hluti, m.a. um aukið samstarf á vettvangi háskólanáms og fullorðinsfræðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert