„Getur haft alvarlegar afleiðingar“

Yfirvofandi verkfall hefur áhrif á akstur strætó.
Yfirvofandi verkfall hefur áhrif á akstur strætó. mbl.isÁrni Sæberg

„Verkföllin munu hafa tvenns konar áhrif hjá okkur. Annars vegar hafa þau áhrif á landsbyggðastrætóinn, sem leggst bara af við verkfallshrinuna í næstu, að því gefnu að allir séu í þeim félögum sem eru að fara í verkföll. Ferðaþjónusta fatlaðra er líka að fara í verkfall í næstu viku en við erum búin að sækja um undanþágu þar en höfum ekki fengið svar. Síðan ef það skellur á allsherjar verkfall hefur það náttúrulega áhrif á dreifingu olíu og þá bara smátt og smátt hættir strætó alveg að keyra,“ sagði Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætós, í samtali við mbl.is. 

Hætt er við að yfirvofandi verkfall muni hafa víðtæk áhrif á starfsemi Reykjavíkurborgar. Verkfallið mun hafa áhrif á akstur hjá ferðaþjónustu fatlaðra og almennan strætóakstur. Að sögn Jóhannesar mun strætóakstur á höfuðborgarsvæðinu riðlast töluvert. 

„Þetta er tvískipt. 40% af ökumönnum á höfuðborgarsvæðinu eru verktakar og verkfall mun hafa áhrif á þá strax. Hinir eru í starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og þar hefur ekki verið boðað til neinna aðgerða.“ Hvernig á að leysa það að 40% bílstjóra verði í verkfalli? „Við getum ekkert leyst þetta, það er verkfall og við göngum ekki í annarra manna störf við þær kringumstæður.“ Ef til verkfalls kemur myndu leiðir sem verktakarnir keyra vera lagðar niður. Tilkynning um slíkt kæmi á heimasíðu Strætó. 

Jóhannes sagðist vera sæmilega bjartsýnn á að takist að semja fyrir áætlað verkfall. „Miðað við ástandið í dag er enginn bjartsýnn. En ég vona að menn komi saman og leysi þessi mál því þetta hefur auðvitað víðtæk áhrif og getur haft alvarlegar afleiðingar.“

Fyrri frétt mbl.is um verkföll Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert