Fjöldi sjúklinga sendur heim

Fulltrúar hjúkrunarfræðinga yfirgefa húsakynni ríkissáttasemjara að fundi loknum í gær.
Fulltrúar hjúkrunarfræðinga yfirgefa húsakynni ríkissáttasemjara að fundi loknum í gær. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Útlit er fyrir að allsherjarverkfall hjúkrunarfræðinga á stofnunum ríkisins hefjist á miðnætti. Af 1.600 stöðugildum hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu eru 500 á undanþágulista og því 1.100 á verkfallsskrá.

Að sögn Sigríðar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítalanum, hefur verið unnið eftir viðbragðsáætlun undanfarna daga til að undirbúa mögulegt verkfall. „Það var búið að gefa það út fyrir helgi að við þyrftum að reyna að rýma sjúkrarúm og það er svosem ágæt staða á spítalanum núna eftir helgina,“ segir Sigríður.

Helgin var nýtt til að rýma sjúkrarúm og sjúklingar sem ekki voru bráðveikir sendir heim. „Það hefur verið mjög mikið álag í allan vetur og viðvarandi um og yfir hundrað prósent rúmanýting. Ég fékk þær fréttir að í lok helgarinnar væri staðan með betra móti þannig að eitthvað hefur gengið að útskrifa.“

Hún segir að tekið sé við þeim sjúklingum sem þurfa að leggjast inn, ekki sé lokað á fólk. „Þá er okkar tæki á móti að óska eftir undanþágum til þess að tryggja mönnun fyrir þá starfsemi sem verður að vera til staðar. Ég hef fulla trú á því að Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga reki sitt verkfall af mikilli ábyrgð til að öryggi sjúklinga sé ekki ógnað og að félagið muni láta sjúklingana njóta vafans.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert