Rúmlega 30% hækkun lágmarkslauna

Frá fundi samningarnefndarfundi Flóabandalagsins í kvöld.
Frá fundi samningarnefndarfundi Flóabandalagsins í kvöld. KRISTINN INGVARSSON

Lágmarkslaun félagmanna Flóabandalagsins, VR, LÍV og SéttVest munu hækka upp í 300 þúsund krónur til ársins 2018 samkvæmt samningsdrögum sem samþykkt voru á stórum samninganefndafundum félaganna fyrr í kvöld, en áður höfðu kjaranefndir félaganna sett upp samninginn með Samtökum atvinnulífsins.

Gengið er út frá því að launataxtar hækki um 25 þúsund krónur frá og með 1. maí þessa árs. Þá verði launaþróunartrygging annarra en þeirra sem taka laun samkvæmt töxtum 7,2% fyrir laun upp að 300 þúsund krónum, en stiglækkandi niður í 3% fyrir tekjuhærri. Hjá VR er einnig samið um að byrjunarlaun afgreiðslufólks hækki að auki um 3.400 krónur.

Lágmarkslaun hækka í skrefum upp í 300 þúsund

Á næsta ári frá og með 1. maí er gert ráð fyrir að launaþróunartryggingin verði 5,5%, eða að lágmarki 15 þúsund krónur.

Frá 1. maí árið 2017 munu svo launataxtar hækka um 4,5%, en almenn hækkun verða 3%. Þá er í samningi VR tilgreint að byrjunarlaun afgreiðslufólks muni að auki hækka um 1.700 krónur.

Þann 1. maí 2018 munu taxtar hækka um 3% en almenn hækkun vera 2%, miðað við átta mánuði.

Með þessu er gengið út frá því að lægstu taxtar, sem í dag eru 214 þúsund, verði við undirritun 245 þúsund, en undir lok samningstímans 300 þúsund. 

Í tilkynningum frá VR kemur fram að formanni félagsins, Ólafíu B. Rafnsdóttur, hafi verið veitt umboð til að halda áfram vinnu á grundvelli þessara meginlína. Á fundi Flóabandalagsins var viðræðunefndinni veitt þetta sama umboð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert