Fagna áformum ríkisstjórnarinnar

Ferðamenn við Gullfoss á góðum degi.
Ferðamenn við Gullfoss á góðum degi. mbl.is/Golli

Samtök ferðaþjónustunnar fagna áformum ríkisstjórnarinnar um að verja auknum fjármunum til uppbyggingar á ferðamannastöðum og vegaframkvæmda á vegakerfi landsins.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að ljóst sé að úrbóta sé þörf við fjölfarna ferðamannastaði og á vegakerfi landsins.

„Fyrir liggur að íslensk ferðaþjónusta hefur haldið uppi atvinnusköpun og hagvexti þjóðarinnar undanfarin ár með þeim stórauknu umsvifum sem orðið hafa í greininni. Íslensk ferðaþjónusta er nú orðin langstærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins og skilaði þjóðarbúinu um 303 milljörðum króna í gjaldeyristekjur á síðasta ári.

Áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu á ferðamannastöðum og úrbætur á vegakerfinu undirstrika þannig mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir land og þjóð,“ segir í tilkynningunni.

Þá er bent á að jafnhliða fjölgun erlendra ferðamanna til Íslands undanfarin ár hafi álag á náttúruna aukist, en talið er að 80% ferðamanna komi hingað til lands einmitt vegna náttúrunnar.

„Við suma fjölfarna áfangastaði ferðamanna er komið að þolmörkum. Þá hefur legið fyrir að uppbyggingar er þörf við fjölmarga ferðamannastaði um land allt. Því er ákaflega ánægjulegt að ríkisstjórnin hafi ákveðið að verja um 850 milljónum í þetta brýna úrlausnarefni, enda mikilvægt að vernda íslenska náttúru til framtíðar,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Þær vegaframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru fyrir 1,3 milljarða eru við Dettifossveg, Kjósarskarðsveg, Uxahryggjaveg og Kaldadalsveg. Framkvæmdir á þessum ferðamannavegum munu efla, að mati Samtaka ferðaþjónustunnar, enn frekar tengingar á milli landssvæða sem eru vinsæl á meðal innlendra jafnt sem erlendra ferðamanna. Samgöngur séu lífæð ferðaþjónustunnar og því sé það fagnaðarefni að hægt sé að ráðast í þessar framkvæmdir strax í sumar.

Til viðbótar verður 500 milljónum varið til brýnna úrbóta á umferðarmestu götum á höfuðborgarsvæðinu og á Hringveginum. Tilgangurinn með þeim framkvæmdunum er að bæta umferðaröryggi, bregðast við slæmu ástandi vega og koma til móts við þarfir landsmanna og ferðamanna vegna stóraukinnar umferðar.

„SAF fagna þessari stórsókn í uppbyggingu á ferðamannastöðum og úrbótum á vegakerfinu og telja að þeir fjármunir sem lagðir verða í þessar mikilvægu framkvæmdir sé vel varið og skili sér margfalt til baka,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert