BHM hafnaði tilboði ríkisins

Samninganefnd BHM hjá ríkissáttasemjara.
Samninganefnd BHM hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hliðstæðu tilboði og samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði var hafnað af BHM á fundi með samninganefnd ríkisins í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Fulltrúar BHM vinna að nú að gagntilboði sem stefnt er að því að kynna samninganefnd ríkisins klukkan 16:00.

Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, segir að þeir kjarasamningar sem samið hafi verið um á almenna markaðinum komi ekki til móts við þá meginkröfu félagsins að menntun verði metin til launa. „Það væri mjög undarlegt ef við féllum allt í einu frá okkar meginkröfu.“ Spurður hvort eitthvað í kjarasamningunum á almenna markaðinum geti verið grundvöllur fyrir lausn á deilu BHM við ríkið segir Páll eins og þeir samningar séu uppbyggðir sjái hann ekki í fljótu bragði að þeir geti á einhvern hátt hentað félagsmönnum BHM. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á dögunum að forsenda þess að hægt væri að semja við BHM væri að samningar næðust á almenna markaðinum. Páll segir aðspurður út í þau ummæli að þá hlyti að vera komið að því að semja við BHM. Fyrirhugað gagntilboð félagsins verður sem fyrr segir kynnt samninganefnd ríkisins klukkan 16:00 í dag en þar verður að sögn Páls lögð áhersla á þá meginkröfu að menntun sé metin til launa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert