Fyrst og fremst feginn

Sigurður ásamt Ólafíu Rafnsdóttur, formanni VR, eftir undirritunina í dag.
Sigurður ásamt Ólafíu Rafnsdóttur, formanni VR, eftir undirritunina í dag.

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, var fyrst og fremst feginn eftir að kjarasamningar við SA voru undirritaðir í Karphúsinu í dag. „Ég er feginn að við  skulum ná því að komast til enda, það var ekkert sjálfgefið. Síðast í nótt var mjög tæpt að samningar færu hér í sundur. En það er alltaf þannig að við erum aldrei búin með samninginn sjálfan fyrr en hann er undirritaður og frágenginn.“

Sigurður segir að í samningnum séu fjölmörg atriði sem koma til góðs fyrir launamenn. „Megináherslan er á lægstu laun og það að tryggja stöðugleika. En líka í leiðinni teljum við að þessi samningur bjóði upp á það.“

Að sögn Sigurðar hófst þessi samningslota fyrir sjö mánuðum síðan en tæpir tveir mánuðir eru síðan deilunni var vísað til ríkissáttasemjara. „En það má segja að lokalotan hafi hafist fyrir að verða tíu dögum síðan. Það hefur verið unnið algjörlega sleitulaust frá morgni til kvölds síðan og hægt og bítandi komumst við til lausnar í þessu verkefni sem verið er að ganga frá akkúrat núna.“

Aðspurður hvort að hann sé glaður í dag svarar formaðurinn því játandi. „Maður er alltaf ánægður með það að klára kjarasamninga. En ánægjan á endanum er alltaf sú sem liggur í lokaatkvæði félagsmanna, að þeir séu sáttir.“

Atkvæðagreiðsla félagsmanna um nýja samninginn hefst í næstu viku og gerir Sigurður ráð fyrir því að niðurstaða liggi fyrir í kringum 20. Júní. Hann segist bjartsýnn á að samningurinn verði samþykktur.

Hann bætir við að launahækkanirnar sjálfar séu upp á 32% í taxtakerfinu sem þýðir verulegar launabreytingar. Heildartala í krónutölum er í kringum 67 þúsund krónur á samningstímanum.

„Nú tekur við kynningastarf þar sem félagsmenn geta metið samninginn sjálfir og  skoða hann útfrá sínum aðstæðum og  hvort að þessar breytingar henti þeim. Við erum að hækka lægstu laun verulega umfram það sem við höfum gert til langs tíma og við höfum tekið tekjutrygginguna og lyft henni til viðbótar,“ segir Sigurður.

Sigurður Bessason, formaður Eflingar.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert