Hafa tafið frágang samninga

Félagar í BHM mótmæla við húsnæði Ríkissáttasemjara.
Félagar í BHM mótmæla við húsnæði Ríkissáttasemjara. mbl.is/Golli

Kjarasamningar á almenna markaðnum geta ekki verið fyrirmynd að samningum við háskólamenn hjá ríkinu. Þetta segir í ályktun frá Félagi prófessora við ríkisháskóla en þar segir að ljóst hafi verið frá upphafi  samningavinnunnar að áherslur í kjarasamningum á almennum markaði og kjarasamningum hjá ríkinu yrðu með ólíkum hætti, þar sem hækkun lágmarkslauna var megin áherslan í samningaviðræðum á almenna markaðnum, meðan réttmæt umbun fyrir menntun og faglega ábyrgð var megin áherslan í samningaviðræðum háskólamanna við ríkið.

„Fjármálaráðuneytið og samninganefnd ríkisins hafa tafið frágang samninga við háskólamenn hjá ríkinu undanfarnar vikur með því að binda samningaviðræðurnar við framgang og áherslur í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Með því hefur tapast dýrmætur tími til að ná samningum. Það virðist einbeittur vilji fjármálaráðuneytisins og samninganefndar ríkisins að virða að vettugi ákvæða laga um sjálfstæðan samningsrétt kjarafélaga opinberra starfsmanna,“ segir í ályktuninni.

Félagið bendir á að umbun fyrir menntun á Íslandi sé nú þegar lægri en meðal annarra Evrópuþjóða samkvæmt nýlegri skýrstlu hagstofu Evrópusambandsins.

 „Þetta gildir fyrst og fremst um störf sérmenntaðra starfsmanna hjá ríkinu. Staðan hérlendis er orðin sú, að meðal einstakra hópa háskólamanna hjá ríkinu er enginn fjárhagslegur ávinningur af háskólamenntun. Að óbreyttu stefnir í mikið ófremdarástand í starfsmannamálum hins opinbera og opinberri þjónustu við landsmenn sem mjög erfitt getur reynst að vinda ofan af.“

Skorar félagið á fjármálaráðuneytið og samninganefnd ríkisins að mæta tafarlaust til viðræðna við Bandalag háskólamanna og hjúkrunarfræðinga um kjarasamninga sem feli í sér réttmæta umbun fyrir menntun og faglega ábyrgð félagsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert