Dúxaði með 9,91 í meðaleinkunn

Útskriftarhópur MH sumarið 2015.
Útskriftarhópur MH sumarið 2015. Ljósmynd/Menntaskólinn við Hamrahlíð

„Þetta snýst um að hafa góða kennara og góða ástundun,“ segir Sóley María Nótt Hafþórsdóttir sem var dúx Menntaskólans við Hamrahlíð við útskriftina sem fór fram um helgina. Hún hlaut meðaleinkunnina 9,91 sem er sú næst hæsta í sögu skólans.

Aðspurð hvort hún hafi stefnt að þessu markmiði, játar hún því. „Ég stefndi alltaf að þessu markmiði en samt gerði ég ekki ráð fyrir að ná þessu takmarki. Það kostaði mikla vinnu að ná þessum árangri en ég hafði líka einhvern tíma fyrir sjálfa mig. Maður verður að passa upp á það líka,“ segir Sóley.

Hún segist alltaf hafa átt auðvelt með að læra auk þess sem hún hafi sinnt náminu vel og haft mikinn áhuga. „Ég var með frábæra kennara sem vöktu áhuga minn á efninu og kunnu að koma efninu frá sér þannig að það var skiljanlegt. Það er ekki allra að geta gert það þótt fólk geti verið mjög klárt,“ segir Sóley sem fagnar tveimur útskriftum þetta vorið en í næstu viku útskrifast hún úr tónlistarnámi þar sem hún hefur lært á selló. 

„Ég hef lært á selló í ellefu ár og útskrifast í vor,“ segir Sóley en hún ætlar sér að námi loknu að hafa tónlistina sem áhugamál. Í haust tekur svo næsta nám við þegar hún hefur nám í stærðfræði við Háskóla Íslands. 

Aðspurð hvort henni hafi fundist öll fögin jafnskemmtileg segir hún svo ekki hafa verið. „Mér líkaði stærðfræðin mest en félagsfræðifögin minnst. Tungumálin og hinar náttúrufræðigreinarnar voru þó líka alveg fínar,“ segir Sóley. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert