Fleiri flugatvik eftir breytingu

Frá flugvellinum við Sandskeið. Myndin er úr safni og tengist …
Frá flugvellinum við Sandskeið. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Árni Sæberg

Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til að flugumferðarsvæði við flugvöllinn á Sandskeiði verði endurskoðuð eftir flugatvik sem átti sér stað árið 2013. Þá mættust tvær litlar flugvélar sem komu úr gagnstæðri átt í svipaðri hæð. Þrjú atvik til viðbótar hafi verið tilkynnt þar eftir breytingar sem voru gerðar í fyrra.

Atvikið átti sér stað 24. mars árið 2013. Þá var flugnemi við flugtaks- og lendingaræfingar á flugvellinum við Sandskeið en á sama tíma var einkaflugmaður við æfingar við Lyklafell. Mættust vélarnar með um 20-40 metra millibili og nánast í sömu hæð.

Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa kemur fram að flugumferðaratvikið hafi átt sér stað á milli Sandskeiðs- og Austursvæðis. Nefndin taldi að bilið á milli svæðanna væri of lítið og það yki líkur á flugumferðaratvikum. Þá séu mörk svæðanna ekki augljós úr lofti sem geri flugmönnum erfitt um vik að átta sig á þeim.

Óviðunandi breytingar á fjarskiptatíðnum

Nefndin leggur til að Samgöngustofa endurskoði staðsetningu Austursvæði og Sandskeiðs með tilliti til marka þeirra þannig að þau verði auðséð úr lofti og með tilliti til fjarlægðar á milli þeirra.

Auk þess hafi vél flugnemans verið utan við þann umferðarhring sem kennslugögn segja til um og utan við Sandskeiðssvæðið. Því leggur nefndin til að flugrekandi flugskólans brýni fyrir kennurum og nemendum að halda sig innan þeirra marka sem ætlast er til þegar flogið er í umferðarhring.

Þá er bent á að þegar atvikið átti sér stað hafi sama fjarskiptatíðnin verið notuð fyrir bæði Sandskeiðs- og Austursvæðið. Nýtt aðflugskort hafi hins vegar tekið gildi fyrir sjónflugsleiðir við Reykjavík 30. maí árið 2014. Fjarskiptatíðni fyrir Sandskeið sé enn sú sama en henni hafi verið breytt fyrir Austursvæðið. Eftir þessar breytingar hafi þrjú flugumferðaratvik verið tilkynnt á svæðinu og því virðist nefndinni breytingarnar óviðunandi. Ástæða sé því til að endurskoða þær.

Ekki voru til afrit af fjarskiptasamskiptum flugmannanna og leggur rannsóknarnefndin til að Samgöngustofa sjái til þess að afrit af fjarskiptum á skilgreindum svifflugs- og æfingasvæðum verði tiltæki í þágu rannsóknahagsmuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert