„Heimsmet í óréttlæti“

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Golli

Til orðaskipta kom á milli þingmanna Framsóknarflokksins, þeirra Karls Garðarssonar og Elsu Láru Arnardóttur, við Steingrím J. Sigfússon, þingmann Vinstri grænna, í þingsal í dag. Gerðu þau Karl og Elsa athugasemdir við málflutning Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, á Sprengisandi um helgina, en þar sagði Oddný að 30% af tekjuhæstu einstaklingum landsins fengju 51 milljarð af þeim 80 sem fóru í skuldaleiðréttinguna.

Framsetning Oddnýjar villandi

Karl sagði þetta fjarri sanni og vera villandi framsetningu hjá Oddnýju. Benti hann á að í útreikningum Oddnýjar væri tekið með allir þeir sem væru í hlutastarfi, ekki í starfi eða námsmenn. „Eini raunhæfi samanburðurinn er að skoða tekjudreifingu þeirra 74 þúsund aðila sem eru með verðtryggð húsnæðislán,“ sagði Karl og bætti við að það væri hópurinn sem hefði orðið fyrir forsendubresti.

Sagði hann rétt að 60% þeirra heimila sem hefðu fengið leiðréttingu væru með minna en 8 milljónir í árstekjur, eða sem svarar 670 þúsund krónum á mánuði. Fyrir hjón þýddi þetta 385 þúsund á hvorn einstakling. Þá hafi stærstur hluti leiðréttingarinnar farið til heimila með undir 4 milljónir í árstekjur.

110% leiðin heimsmet í óréttlátri dreifingu fjármuna

Karl bar þetta saman við 110% leið fyrri ríkisstjórnar. Sagði hann að þar hefðu þeir 1250 sem hefðu fengið mest í sinn hlut að meðaltali fengið 21 milljón niðurfellda. Í skuldaleiðréttingunni hefðu þeir 1250 sem mest fengu fengið að meðaltali 3,5 milljónir. „Gagnrýnin kemur því úr hörðustu átt frá þeim sem settu heimsmet í óréttlæti, heimsmet í óréttlátri dreifingu fjármuna,“ sagði Karl. Elsa tók svo undir þessi orð Karls og fór yfir frekari tölfræði máli sínu til stuðnings.

Skuldaleiðréttingin „fjáraustur úr ríkissjóði“

Steingrímur steig í pontu og mótmælti þessari framsetningu Framsóknarmanna. Sagði hann það vera „þvílík steypa“ að leggja að jöfnu „fjáraustur úr ríkissjóði“ til fólks sem væri oft ágætlega efnað og svo 110% leiðina. Benti Steingrímur að 110% leiðin væri eigna- og tekjutengd. „ Hún snérist um að færa niður kröfur á fólki sem var í bullandi yfirveðsettu eignum og átti ekki aðrar eignir á móti,“ sagði Steingrímur.

Sagði hann að í 110% leiðinni hefðu menn ekki verið að gefa neitt eftir af innheimtanlegum kröfum, heldur hafi fólk í raun verið gjaldþrota. „Sýnir ótrúlega fáfræði eða ósvífni, nema hvoru tveggja sé,“ sagði Steingrímur að lokum.

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert