„Sárt að horfa upp á vonleysið“

Kona Einars var ánægð að sjá hann eftir sjö vikna …
Kona Einars var ánægð að sjá hann eftir sjö vikna aðskilnað. Eggert Jóhannesson

„Verkefnin okkar eru fyrst og fremst landamæragæsla en svo fléttast inn í þetta björgunarstörf. Þegar fór að vora varð gríðarleg aukning á fjölda flóttafólks og síðan þessi túr hófst 1. febrúar er búið að taka á móti 45 þúsund flóttamönnum á Ítalíu,“ sagði Einar H. Valsson, skipherra á varðskipinu Tý, í samtali við mbl.is. Einar var að stíga í land eftir 7 vikna túr þar sem skipið sinnti landamæragæslu fyrir Frontex, landamæragæslu Evrópusambandsins. 

Hrósar áhöfninni

Áhöfnin á Tý hefur staðið vaktina og bjargað flóttafólki úr ógöngum. „Við höfum komið að björgum 3257 einstaklinga sem er mikið fyrir fámenna áhöfn okkar. Þetta hefur gengið ótrúlega vel og ég verð að hrósa áhöfninni fyrir vel unnin störf því það tekur á að koma bát með 300 manns fyrir og eiga að tryggja öryggi þess.“

Einar sagði að þessi verkefni geti auðvitað reynt á andlega þáttinn hjá áhöfninni. „Þetta reynir ekki síður á andlega þáttinn en við erum búin að vera ótrúlega heppin, það hefur enginn látist hjá okkur og við höfum ekki þurft að taka upp neinn látin, en erum alltaf undir það búin.“

Erfitt og gefandi

Það er erfitt að lýsa því en verkefnin eru erfið og oft er sárt að horfa upp á vonleysið hjá flóttafólkinu. „Erfiðast að horfa upp á fólk sem er að yfirgefa heimili sitt og landið sitt með ekki neitt á milli handanna og sjá þetta fólk með kannski kornabörn og aleiguna kannski í ferðatösku og sumt ekki. Sumt fólkið á ekkert nema það sem það stendur í og það er það sem er átakanlegast í þessu.“ Fólkið leggi af stað í ómerkilegum bátum og ferðirnar séu langar, oft 200 sjómílur, og þá sé átakanlegt að verða vitni að fólki sem veður í slíka áhættu án þess að gera sér grein fyrir hættunni.

„Hin hliðin er að þetta er auðvitað gríðarlega gefandi og ég vil meina að haldi okkar andlegu hlið gangandi og á meðan við lendum ekki í stórum áföllum þá er þetta gífurlega gefandi starf, Fólkið er þakklátt fyrir það sem við veitum því og það er rosalega gaman að taka þátt í þessu verkefni á meðan allt gengur svona vel.“

Kallinn í brúnni.
Kallinn í brúnni. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert