Sérstakt kvennaþing árið 2017

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, viðraði róttæka hugmynd um kvennaþing.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, viðraði róttæka hugmynd um kvennaþing. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvað sér hljóðs á þingi í dag og setti fram þá hugmynd að í næstu þingkosningum, árið 2017, ætti að kjósa sérstakt kvennaþing. Sagði hún hugmyndina róttæka, en til þess fallna að sjá hvort að það væri satt að vinnubrögð kvenna væru önnur en hjá körlum.

Ragnheiður sagði lítið hafa breyst í störfum þingsins á þeim 8 árum sem hún hefði setið á þingi. Sagðist hún hafa tvær tillögur að breytingum sem hún vildi leggja fram. Í fyrsta lagi að eitt þing myndi fara í að endurskoða gömul lög í stað þess að setja ný. Sagði hún að skoða ætti hvort og þá hvernig önnur lög virka og hvort ekki mætti taka til í lagasafninu.

Í öðru lagi var það hugmyndin um kvennaþing. Viðurkenndi hún strax að þetta væri mjög róttæk hugmynd. Hugmyndin væri „hvort það væri möguleiki í kosningum árið 2017 að þá sitji eingöngu konur á þingi í tvö ár, frá 2017-2019, þá yrði kosið til kvennaþings til tveggja ára og konur fái tækifæri til að sýna fram á hvort að það sé í raun satt því sem haldið er fram að vinnubrögð kvenna séu með öðrum hætti en vinnubrögð karla,“ að sögn Ragnheiðar.

Heyrðust nokkrar þingkonur kalla „heyr heyr“ að lokinni ræðu Ragnheiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert