Smári nýr formaður Landsbjargar

Smári Sigurðsson, nýkjörinn formann Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Smári Sigurðsson, nýkjörinn formann Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Smári Sigurðsson frá Akureyri var kjörinn nýr formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á landsþingi félagsins um helgina. Þingið fór fram á Ísafirði. Auk hans voru kjörnir í stjórn átta félagar sem koma víðs vegar af landinu. Rúmlega sex hundruð sjálfboðaliðar slysavarnadeilda og björgunarsveita frá öllu landinu sátu þingið.

Bryndísi Fanneyju Harðardóttur úr björgunarsveitinni Víkverja var afhentur heiðursskjöldur Slysavarnafélagsins Landsbjargar en hann er æðsta viðurkenning félagsins og veitist einstaklingum fyrir sérlega fórnfúst starf í þágu þess. Skjöldinn fær Bryndís fyrir forystustörf í þágu félagsins, m.a. sem ritari og stjórnarmaður  Slysavarnafélagsins Landsbjargar ásamt óeigingjörnu starfi í aðgerða- og slysavarnamálum félagsins.

Nýstofnuð Slysavarnadeild Kópavogs sótti um aðild að félaginu og var samþykkt með kröftugu lófaklappi allra þinggesta, segir í fréttatilkynningu.

Að þessu sinni voru tvö fyrirtæki heiðruð en Olís fékk afhentan Áttavitann sem er veittur til fyrirtækja og stofnana sem hafa stutt við starf Slysavarnafélagsins Landsbjargar í gegnum tíðina. Slíkur stuðningur er félaginu ómetanlegur og öllu starfinu til framdráttar. Með slíkum stuðningi er Olís að leggja lóð sitt á vogarskálar leitar, björgunar og slysavarna í landinu.
Orkubú Vestfjarða fékk einnig viðurkenningu fyrir gott forvarna- og öryggisstarf meðal starfsmanna sinna.

Isavia heimsótti landsþingið og afhenti styrki að upphæð níu milljónir króna til 25 björgunarsveita sem munu nýta hann til uppbyggingar á hópslysaviðbúnaði sínum.

Á landsþinginu var einróma samþykkt að félagið mundi efla enn frekar forvarna- og slysavarnastarf sitt. Má benda á því sambandi að með auknu frístundastarfi íslendinga hefur bæði ferða- og reiðhjólaslysum fjölgað og ekki síður óhöppum og slysum erlendra ferðamanna. Nú sem fyrr þarf því að leggja áherslu á slysavarnir í íslensku þjóðfélagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert