Vilja lækka innritunaraldur í haust

Í tillögunni felst að frá og með næsta hausti muni …
Í tillögunni felst að frá og með næsta hausti muni börn fædd í janúar til apríl 2014 fá úthlutað leikskólaplássi. Árni Sæberg

Fulltrúar Samfylkingar og VG í fræðsluráði Hafnarfjarðarbæjar hafa lagt fram tillögu um að lækka innritunaraldur í leikskólum Hafnarfjarðarbæjar strax næsta haust. Í tillögunni felst að frá og með næsta hausti muni börn fædd í janúar til apríl 2014 fá úthlutað leikskólaplássi. Í fundargerð kemur fram að fulltrúar meirihlutans hafi frestað afgreiðslu tillögunnar en vísuðu eigin tillögu um óbreyttan innritunaraldur til bæjarstjórnar. 

Áður höfðu fulltrúar meirihlutans lagt til að innritunaraldur yrði miðaður við börn fædd í janúar-febrúar 2014, sem er í samræmi við framkvæmd innritunar haustið 2014.

„Við erum auðvitað mjög ánægð með að meirihlutinn ætli að bakka með hugmyndir sínar um hækkun innritunaraldurs næsta haust en við viljum nýta svigrúmið sem skapast vegna fámennari árganga og taka skref til lækkunar á innritunaraldrinum. Það er fyrirséð að leikskólabörnum fækki um 120-130 samanborið við síðasta haust og á næstu þremur árum verði fækkunin enn meiri. Það er því lag núna til þess að lækka aldursviðmiðin og taka síðan sambærileg skref næstu ár og brúa þannig bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla,“ er haft eftir Öddu Maríu Jóhannsdóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í fræðsluráði, í tilkynningu. 

„Til þess að það sé hægt verðum við þó að hverfa frá ákvörðunum um  lokun einstakra rekstrareininga og starfsstöðva. Það gefur auga leið að með því að loka leikskólum eða deildum er dregið úr heildarfjölda þeirra plássa sem við höfum til ráðstöfunar í bænum og þar með möguleikum okkar til að fara í raunverulega lækkun innritunaraldurs í leikskólum. Þrátt fyrir að tillögur okkar hafi ekki fengið efnislega meðferð í fræðsluráði munum við fylgja þeim eftir og leggja þær fyrir bæjarstjórn í næstu viku.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert