Fleiri konur nota svefnlyf en karlar

Svefnlyfjanotkun er mikil hér á landi.
Svefnlyfjanotkun er mikil hér á landi. AFP

Nýjum notendum svefnlyfja fækkaði í aldurshópnum 40-79 ára á árunum 2005-2013 en fjölgaði hjá fólki á aldrinum 20-39 ára. Þetta kemur fram í meistaraverkefni lyfjafræðinemans Tinnu Arinbjarnardóttur um nýgengni og notkun svefnlyfja á Íslandi.

„Það er staðreynd að svefnlyfjanotkun er mikil hér á landi en það hefur mikið verið í umræðunni undanfarin ár svo að mér fannst þetta mjög áhugavert viðfangsefni,“ segir Tinna, aðspurð um ástæður þess að hún ákvað að skoða svefnlyf og notkun þeirra í verkefni sínu.

Tinna var fyrst og fremst að skoða hvort nýgengni (nýir notendur) og notkun svefn- og róandi lyfja væri mismunandi eftir aldri, kyni og landsvæðum. „Auk þess skoðaði ég hvaða lyf það væru sem mest eru notuð þegar um nýgengni þessara lyfja er að ræða,“ segir Tinna.

Tinna fékk gögn frá Embætti landlæknis sem ná yfir allar lyfjaúttektir svefn- og róandi lyfja hjá Íslendingum frá 18 ára aldri til þess að vinna verkefnið. Hún fékk einnig mannfjöldagögn frá Hagstofu Íslands. „Úrvinnslan fór fram tölfræðiforritinu R Studio en þar skoðaði ég nýgengi á hverja 1000 íbúa hjá fólki á aldrinum 20-79 ára ásamt fjölda lyfjaúttekta á hverja 1000 íbúa frá 20 ára aldri,“ segir Tinna.

„Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að nýjum notendum svefnlyfja hafi fækkað í aldurshópnum 40-79 ára, á árunum 2005 til 2013, sem er jákvæð þróun. Aftur á móti hefur nýgengið hækkað hjá fólki á aldrinum 20-39 ára sem þarf að athuga betur. Í ljós kom einnig að nýgengi notkunar svefnlyfja var hærra meðal kvenna en karla í öllum aldurshópum,“ segir Tinna og bætir við að  þróun nýgengis og notkunar svefn- og róandi lyfja hafi verið mjög svipuð eftir landssvæðum.

Tinna segir að þrátt fyrir að nýgengi notkunar lyfjanna fari lækkandi hjá fólki á aldrinum 40-79 ára, bendir það ekki endilega til þess að notkun þessara lyfja sé að fara minnkandi. „Samkvæmt gögnum frá NOMESKO fór notkun svefn- og róandi lyfja, talið í skilgreindum dagsskömmtum, á Íslandi hækkandi fram til ársins 2010 á sama tíma og nýjum notendum fækkaði. Hugsanlega er hluti notenda að taka meira af svefn- og róandi lyfjum og í lengri tíma en það er gangstætt því sem lagt er til í klínískum leiðbeiningum fyrir notkun þessara lyfja,“ segir Tinna en eftir útskrift tekur hún til starfa hjá Lyfjaveri sem lyfjafræðingur en Lyfjaver rekur hvort tveggja apótek og lyfjaskömmtunarfyrirtæki.

Tinna rannsakaði nýgengni og notkun svefn- og róandi lyfja.
Tinna rannsakaði nýgengni og notkun svefn- og róandi lyfja.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert