Verkfalli iðnaðarmanna frestað

Iðnaðarmenn að störfum.
Iðnaðarmenn að störfum. Ernir Eyjólfsson

Verkfalli félagsmanna Rafiðnaðarsam­bands Íslands,  Fé­lags vél­stjóra- og málm­tækni­manna og Mat­vís, sem hefjast átti á miðnætti á morgun hefur verið frestað. Þetta staðfestir Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, í samtali við mbl.is.

Verkfallinu hefur verið frestað til 22. júní, rétt eins og verk­fallsaðgerðum aðild­ar­fé­laga Samiðnar, Grafíu/​FBM stétt­ar­fé­lags í prent- og miðlun­ar­grein­um, og Fé­lags hársnyrti­sveina. Þeim var frestað um helgina. 

„Við höfum náð að þoka okkar málum aðeins áleiðis. Við töldum að það væri grundvöllur til að fresta þessu en nú tekur við áframhaldandi vinna. Tíminn mun leiða í ljós hver niðurstaðan verður með framhaldið,“ segir Guðmundur en ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilunni. "En það verður gert mjög fljótlega, líklega í vikunni."

Guðmundur segir að það sé erfitt að segja til um hvort það náist að semja áður en verkfallið hefst eftir tvær vikur. 

„Það er erfitt að segja til um það að þessu stigi. Þó að það hafi verið talið skynsamlegt að fresta þessu verkfalli þá á eftir að sjá hvaða niðurstöðu okkur tekst að ná með önnur atriði.“

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert