„Sprengj­an særði mig að hjartarót­um“

Masaki Hironaka var tæplega sex ára þegar atómsprengjunni Litli drengur …
Masaki Hironaka var tæplega sex ára þegar atómsprengjunni Litli drengur var varpað á Hiroshima. mbl.is/Golli

Í ágúst verða 70 ár liðin frá því að bandaríkjaher varpaði kjarnorkusprengjum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Þrátt fyrir að hafa aðeins verið tæplega sex ára gamall er atburðarrásin sem fylgdi enn greipt í huga Masaki Hironaka og þurfti hann reglulega að þurrka augun með vasaklút á meðan hann deildi upplifun sinni með hópi íslenskra barna og foreldrum þeirra í Höfða í morgun.

Þann 6. ágúst var atómsprengju varpað á Hiroshima og þrem dögum seinna var annarri slíkri varpað á Nagasaki. Minnst 130 þúsund manns létust vegna árásanna en tölurnar eru nokkuð á reiki þar sem fólk deyr, enn þann dag í dag vegna sjúkdóma af völdum geislunarinnar sem fylgdi sprengingunum.

Hironaka bjó í hverfi sem hét Koi-cho og var í um 3,5 kílómetra fjarlægð frá miðju sprengingarinnar í Hiroshima. Hann var að leik í læk nálægt heimili sínu þegar heimurinn varð skyndilega appelsínugulur fyrir augum hans og sprengingar, líkt og frá flugeldum ómuðu. Það var það sem eftirlifendur hafa kallað „pikadon“ en orðið lýsir leiftrinu og hljóðinu sem fylgdi atómsprengjunni. Fáeinum sekúndum seinna birtist brúnleit höggbylgjan líkt og vindur á ægihraða og Hironaka féll aftur fyrir sig.

„Ég var ringlaður því ég vissi ekki hvað hafði gerst. Engu að síður man ég eftir því að hafa heyrt í rúðunum á nálægum húsum brotna og hljóðið í þakskífunum sem rifnuðu af húsunum og brotnuðu á jörðinni.“

Húðin hékk eins og snæri

Móðir Hironaka æpti á hann að fara í loftvarnarbyrgi um 100 metrum frá heimili þeirra en hún hljóp sjálf á undan með tveggja ára systur hans á arminum. Þar sem hann hljóp á eftir þeim sá hann sveppalaga skýið eftir sprenginguna vaxa og vaxa.

„Þegar ég kom að skýlinu var of mikið af fólki til þess að ég kæmist inn. Ég æpti „Mamma“ nokkrum sinnum en hún heyrði líklega ekki í mér. Það var ekkert svar. Ég var áhyggjufullur og einmana og byrjaði að gráta. Það var þá sem geislavirk, svört rigning tók að falla.“

Þegar Hironaka, móðir hans og systir komu komu aftur heim sat fólk sem hafði orðið fyrir sprengingunni í anddyrinu. „Þau voru  með slæm brunasár. Andlit þeirra, hendur, brjóst, fótleggir og hár, allt var brennt og krumpað. Húðstykki héngu af þeim eins og snæri og á öðrum stöðum var hörund þeirra rautt og þakið blöðrum. Þau litu út fyrir að vera við að deyja.“

Svipaða sögu var að segja af fólki sem gekk framhjá húsinu þeirra. Þeir brenndu gengu í keng, með handleggina lafandi fyrir framan sig og húðin lafði af þeim líkt og bómullargirni. Á himninum reis sveppaskýið og teygði úr sér.

Þegar dimma tók leiddi móðirin systkinin að barnaskóla hverfisins þar sem þeim hafði verið sagt að faðir þeirra væri. Á leiðinni kallaði Hironaka í sífellu „Pabbi?“ til þeirra sem þau mættu en fékk engin svör. Fjölskylduföðurinn fundu þau ekki fyrr en þau sneru aftur á heimili sitt en þá sat hann í myrkrinu í eldhúsinu.

„Faðir minn var býsna veikburða og þegar við skoðuðum hann við kertaljósið sást að hann var með brunasár frá höfði niður á bak og buxurnar hans voru tættar.“

Faðir Hironaka bað hann um að fjarlægja glerbrot sem stóð um einn sentímetra út úr baki hans en brotið var of djúpt í vöðvanum til þess að sonurinn næði því með berum höndum.„„Náðu í töngina,“ sagði faðir minn.  Ég náði í þær úr bílskúrnum og togaði oft í það. Það brotnaði svo ég gat aðeins togað í þá örfáu millimetra sem stóðu lengst út. Ég gat ekki meir svo ég bað móður mína um að gera það. Ég man ekkert fleira frá þessu kvöldi.“

Skammaðist sín fyrir að gráta

Þegar Hironaka vaknaði næsta dag var móðir hans að mata föður hans á grjónagraut og Hironaka sá að hann þjáðist mikið. Um eftirmiðdaginn bað móðir Hironaka hann um að vera hjá föður sínum þar sem hana grunaði að síðustu augnablikin væru nærri. Hún hafði sótt embættismann úr hverfinu til að vera hjá þeim en Hironaka hélt sig fjarri.

„Þau kölluðu til mín margoft og sögðu „Komdu hér því faðir þinn gæti dregið sinn síðasta andardrátt á hverri stundu.“ Ég heyrði í þeim en ég gat ekki komið nálægt honum. Ég skammaðist mín of mikið fyrir að gráta fyrir framan fólk, þrátt fyrir ungan aldur.“

Skömmu eftir andlátið gat Hironaka fært sig til móður sinnar. Hann hélt í hönd föður síns og sá að sársaukinn var horfinn úr svip hans sem var aftur orðinn eins blíður og hann átti að sér að vera.

„Þegar ég hugsa til baka, velti ég því fyrir mér hvort hann hefði sagt eitthvað ef ég hefð verið hjá honum. Ég held að hann hefði sagt mér að passa upp á móður mína. Ég hefði getað séð andlit hans þegar hann lést. Ég sé svo mikið eftir því.“   

Hironaka segist hafa hatað Bandaríkjamenn fyrir að hafa varpað sprengjunum á Hiroshima og Nagasaki og þegar Bandarískir hermenn komu til Hiroshima tveimur árum seinna köstuðu hann og vinur hans grjóti í skriðdreka þeirra.

„Þá komu tveir hermenn út úr skriðdreka og við flýðum út á engi. Þeir skutu á okkur og ég hélt að einn þeirra hefði skotið mig til bana. Ég hélt það væri úti um okkur. Ég bar þetta hatur í brjósti lengi en hér og nú hata ég ekki nokkurn lifandi mann.“

„Okkur langaði til að heyra um friðinn“

Hironaka er hér á landi á vegum samtakanna Mayors for Peace og Peace Boat sem hafa tekið höndum saman um verkefnið I Was Her Age eða Ég var á hennar aldri þar sem eftirlifendur kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945, sem kallaðir eru „Hibakusha“, ferðast vítt og breitt um heiminn og breiða út friðarboðskap.

Fimm íslenskum barnafjölskyldum var sérstaklega boðið til móttökunnar í Höfða og hlýddu börnin á frásögn Hironaka auk þess sem þau föndruðu origami pappafígúrur með hjálp eftirlifendanna. Hironaka sýndi myndir af atburðarrásinni, sem hann hafði sjálfur teiknað eftir minni, á meðan hann sagði sögu sína og þó svo að tilfinningar eldri áhorfenda tækju á sig augljósara form var ljóst að frásögn Hironaka hafði einnig mikil áhrif á börnin.

„Ég var fimm ára gamall þetta gerðist, munið þið hvað þið voruð að gera þegar þið voruð fimm ára?“ spurði Hironaka börnin eftir framsögu sína. Þau hristu höfuðið öll sem eitt, enda hálffullorðin – á aldrinum sjö til tíu ára. „Þó ég væri svona ungur, gat ég aldrei gleymt því sem ég sá.“

Hinir 10 ára gömlu Stefán Gunnar Kjartansson Maack og Karl Orri Brekason voru meðal áheyrenda og eru rólegir en þó brosandi þegar blaðamaður nær af þeim tali eftir frásögn Hironaka. „Okkur langaði til að heyra um friðinn,“ segir Stefán um ástæður þess að hann kom í Höfða. „Þetta var gaman og sorglegt,“ segir Karl. „Ég tók eftir tóninum í röddinni [í Hironaka],“ skýtur Stefán að. „Hann var gráti næst.“

Börnin voru alvarleg í bragði á meðan á framsögu Hironaka stóð. Á hvítdúkuðum borðunum í Höfða voru hringlaga skálar fullar af jarðarberjum og kirsuberjatómötum og var því sem börnin væru að tína upp í sig sólina í japanska fánanum. Eftir því sem leið á söguna fór þó áhugi þeirra á skálunum að dvína. „Ég fór næstum því að gráta,“ segir Karl, alvarlegur í bragði og Stefán kinkar kolli. „Ég fór að gráta.“

 „Hann vill að það komi friður í heiminum,“ segir Karl um ástæður þess að Hironaka kýs að segja sögu sína, og blaðamanni verður á að spyrja hvort það sé nokkuð hægt. „Já,“ segja þeir ákveðnir í kór og Stefán réttir úr sér. „Með því að mótmæla kjarnorkuvopnum og bara almennt öllum vopnum.“

„Eins og faðir minn sé að hlusta á mig“

Í för með Hironaka eru sjö aðrir eftirlifendur kjarnorkuárásanna, ýmist frá Hiroshima eða Nagasaki, og hvert og eitt þeirra á sína sögu. Soh Horie á t.a.m. systur sinni líf sitt að launa en hún skýldi honum með líkama sínum þegar sprengingin í Hiroshima þrykkti þeim aftur á bak. Masao Ito hefur aldrei getað gleymt þeim fjölda líka sem brennd voru í garði nálægt heimili hans í Hiroshima, hvert á fætur öðru, dögum saman eftir sprenginguna og tvær systur, dóttir og systurdóttir Shizuko Mitamura létust allar úr krabbameini sem rekja má til geislunnar af völdum atómsprengjunnar í Nagasaki. Sumir þeirra sem eru með í för héldu sögum sínum fyrir sig framan af ævinni af ótta við að verða fyrir fordómum og mismunun fyrir að vera „Hibakusha“.

Í dag hafa eftirlifendur hinsvegar myndað með sér samtök sem Hironaka hefur starfað fyrir um nokkurra ára skeið. Hann, líkt og flestir eftirlifendurnir sem taka þátt í I Was Her Age, hefur sagt sögu sína margsinnis opinberlega. Í samtali við blaðamann segir hann mikilvægt fyrir heimsbyggðina að slíkur vitnisburður lifi áfram en að einnig veiti það honum vissa fróun að segja frá.

„Þegar ég var lítill gat ég ekki grátið en atómsprengjan hefur sært mig niður að hjartarótum. Það hverfur ekki,“ segir Hironaka. „Í hvert skipti sem ég segi frá þessum atburðum verð ég aftur fimm ára gamall. Það kallar fram tár vegna óttans og þess sem ég sá en þegar ég græt líður mér vel þar sem tárin eru hrein. Þegar ég græt líður mér eins og faðir minn sé að hlusta á mig og það lætur mér líða vel.“

Jafnvel við þessar stuttu samræður brestur rödd Hironaka og hann grípur til vasaklútsins til að þerra augun.

„Faðir minn var 39 ára þegar hann dó og átti fallegt líf fyrir höndum sem sprengjan hrifsaði frá honum. Hermenn sem fara í stríð fá bætur frá ríkinu en það fá þeir saklausu sem deyja ekki.“

Skýin sem fylgdu sprengingunum yfir Hiroshima (t.v.) og Nagasaki (t.h.)
Skýin sem fylgdu sprengingunum yfir Hiroshima (t.v.) og Nagasaki (t.h.) Ljósmynd/ Wikipedia
Hibakusha telja að allir foreldrar sem heyra söguna komist ekki …
Hibakusha telja að allir foreldrar sem heyra söguna komist ekki hjá því að reyna að gera allt til að forða börnum sínum frá svo grimmum örlögum og vilja því koma boðskapnum á framfæri sem víðast. mbl.is/Golli
Mynstur klæða þessa fórnarlambs í Hiroshima brenndist í húð þess.
Mynstur klæða þessa fórnarlambs í Hiroshima brenndist í húð þess. Ljósmynd/ Wikipedia
Séð yfir Nagasaki, fyrir og eftir sprengjuna.
Séð yfir Nagasaki, fyrir og eftir sprengjuna. Ljósmynd/ Wikipedia
Aðstoðarfólk eftirlifendanna sýndu yfirlitsmynd af rústum Hiroshima, tveimur mánuðum eftir …
Aðstoðarfólk eftirlifendanna sýndu yfirlitsmynd af rústum Hiroshima, tveimur mánuðum eftir að atómsprengjan féll. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert