„Reyna að svelta okkur til hlýðni“

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/Rax

„Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar  sannar það sem okkur í BHM hafði grunað lengi, það að það átti að reyna að svelta okkur til hlýðni í samningaferlinu. Það tókst þeim ekki og þess vegna ímynda ég mér að ríkisstjórnin fari þessa leið,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM,  aðspurð um skoðun hennar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um að fresta verkfalli BHM  til 1. júlí.

„En ég vona að með þessum fresti sem gefinn er til 1.júlí til að ná samningum fylgi einlægur ásteningur ríkisstjórnarinnar um að semja og leggja eitthvað til þeirra kjarasamninga,“ bætir hún við. 

Verkfall BHM hefur nú staðið yfir í tíu vikur. Þórunn hefur heyrt af því síðustu vikur að fólk innan BHM sé að segja starfi sínu lausu vegna ástandsins. „Ég hef fengið fregnir af uppsögnum og það má alveg búast við því að það haldi áfram miðað við tóninn í fólki og hvernig því líður eftir tíu vikur í verkfalli.“

Aðspurð um næstu skref stjórnar BHM í þessu máli segir Þórunn að  þau verði rædd í fyrramálið. „Í  þessari stöðu gerum við ekki annað í sjálfu sér en að hittast, tala saman og ákveða næstu skref.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert