Af Austurvelli á þingpallana

Mótmælendur höfðu beðið þess síðan 10 í morgun að fundur …
Mótmælendur höfðu beðið þess síðan 10 í morgun að fundur hæfist. mbl.is/Anna Marsibil

Mótmælunum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Bandalags háskólamanna á Austurvelli er lokið.

Þingfundur hófst klukkan hálf tvö í dag og stendur enn. Mótmælin hófust klukkan 10 í morgun og stóðu allt til hádegis þegar gert var hlé þegar ljóst var að þingfundi yrði frestað. Á fimmta hundrað manns voru á Austurvelli þegar mest lét en þegar mótmælendur komu saman á ný klukkan hálf tvö hafði fækkað nokkuð í hópnum. 

Að sögn hjúkrunarfræðinga sem blaðamaður ræddi við undir lok mótmælanna höfðu nokkrir úr þeirra hópi verið kallaðir á undanþáguvaktir á bráðamóttöku og hafði einn viðmælenda sjálfur fengið þrjú smáskilaboð þar sem óskað var eftir því að hann kæmi á vakt.

Brotthvarf mótmælenda má þó helst rekja til þess að ljóst þykir að umræða um frumvarp ríkisstjórnarinnar um bann á verkfalli hjúkrunarfræðinga muni standa fram á kvöld. Mátti merkja nokkur vonbrigði með umræðuna innan veggja Alþingis á þeim mótmælendum sem úti stóðu við upphaf hennar.

Þegar þetta er skrifað sitja álíka margir á þingpöllunum og í þingsalnum. Pallarnir voru þéttsetnir lengi framan af og hafa áhorfendur látið vel í sér heyra þegar þeim líkar, eða mislíkar það sem þingmenn í pontu hafa að segja. Í upphafi sátu nokkrir karlmenn á þingpöllum, þ.á.m. formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Ólafur G. Skúlason en nú sitja þar aðeins konur. Þátttaka í mótmælunum og viðvera á þingpöllum endurspeglar því þannig að ekki verður um villst að í þingsal er tekist á um kjör kvennastéttar.

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hallar sér fram …
Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hallar sér fram á handrið við þingpalla. mbl.is/Anna Marsibil
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert