Sigurður Ingi flytur frumvarpið

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, umkringdur fréttamönnum á tröppum …
Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, umkringdur fréttamönnum á tröppum Stjórnarráðsins. Hann sat lengst ráðherra inni með forsætisráðherra á ríkisstjórnarfundinum í gærkvöldi en boðað var til fundarins með skömmum fyrirvara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um að fresta til 1. júlí verkfallsaðgerðum einstakra aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH).

Eftir átök á milli oddvita ríkisstjórnarflokkanna um hvaða ráðherra ætti að flytja frumvarpið varð niðurstaðan sú, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, myndi flytja frumvarpið á Alþingi.

Frumvarpið verður sent þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna til umfjöllunar og er ráðgert að leggja það fram á Alþingi eins skjótt og unnt er. Þingfundur sem hefjast átti um hádegi hefur verið færður fram og hefst kl. 10. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna voru settir inn í málið í gær. Þingflokksfundir eru boðaðir kl. 9 í dag þar sem fjalla á um málið.

Í frumvarpinu er verkfallsaðgerðum frestað til 1. júlí næstkomandi og aðilum falið að nýta þann tíma til að ná samkomulagi á farsælan hátt, ella fari kjaradeilan í gerðardóm.

Ástandið óþolandi

Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar í gærkvöldi segir m.a. að ljóst sé að við óbreytt ástand verði ekki búið enda þyki sýnt að núverandi aðstæður skapi verulega ógn við öryggi sjúklinga. „Í ljósi þeirra gagna sem Embætti landlæknis hefur aflað sér frá heilbrigðisstofnunum og frá einstökum sjúklingum er ljóst að alvarleiki málsins er mikill gagnvart öryggi sjúklinga. Í minnisblaði Embættis landlæknis til ríkisstjórnarinnar segir: „Verkföllum verður að ljúka tafarlaust ef ekki á illa að fara. Það ástand sem hefur skapast er óþolandi og kemur til með að valda óbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga og skaða heilbrigðisþjónustuna bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið. Stjórnvöld bera nú ábyrgð á því að ljúka þessu ástandi með einum eða öðrum hætti,““ segir í tilkynningunni.

Þá segir einnig að deilan hafi valdið nokkrum atvinnugreinum miklu tjóni og að óbreytt ástand muni valda miklum skaða. „Verkfallsaðgerðir hjá sýslumannsembættum og dýralæknum koma niður á réttindum annarra og hafa neikvæð áhrif á ráðstöfun eigna, viðskipti og framleiðslu svo fátt eitt sé nefnt.“

Enginn ráðherra vildi tjá sig við fréttamenn þegar þeir komu út af ríkisstjórnarfundinum í gærkvöldi.

Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar segir að stjórnvöld standi frammi fyrir þeim erfiða kosti að grípa inn í kjaramál deiluaðila og sú ákvörðun sé ekki léttvæg. „Til grundvallar þeirri ákvörðun liggur það mat deiluaðila og ríkissáttasemjara að ekki séu forsendur fyrir samningum eða frekari fundahöldum eins og málin standa nú og lausn sé ekki í sjónmáli þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til samninga.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra eftir ríkisstjórnarfundinn í gærkvöldi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra eftir ríkisstjórnarfundinn í gærkvöldi. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert