„Stórtjón“ hjá svínabúum gæti leitt til gjaldþrota

Búin eru full af svínum sem ætti fyrir löngu að …
Búin eru full af svínum sem ætti fyrir löngu að vera búið að slátra, segir Gunnar Geirsson. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Geir Gunnar Geirsson, framkvæmdastjóri Stjörnugríss á Kjalarnesi, segir margra vikna stopp á slátrun hjá svínabúum vegna verkfalls dýralækna hafa komið þungt niður á íslenskum svínabændum.

Dýralæknar eru félagsmenn í BHM og lauk verkfallinu með lagasetningu á laugardaginn var.
„Þetta hefur haft gríðarlega slæm áhrif á svínabændur og hefur þegar valdið okkur stórtjóni. Það er ekki séð fyrir endann á því. Það mun taka marga mánuði að vinna þetta upp,“ segir Geir Gunnar í umfjöllun um mál svínabænda í Morgunblaðinu í dag.

Hann áætlar aðspurður að vegna verkfalls dýralækna hafi safnast upp 500 tonn af „frosnum og lifandi birgðum“ af svínakjöti. „Það er sala sem er alveg töpuð. Það er enda ekki hægt að selja sama matinn tvisvar. Fólk borðaði eitthvað annað á þessu tímabili.“ Spurður hvort þetta mikla framboð muni leiða til verðfalls á svínakjöti segir Geir Gunnar að þegar sé farið að bjóða svínakjöt á niðursettu verði í verslunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert