Ráða ekki dagskrá dómstóla

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. mbl.is/Golli

Slitastjórn Glitnis segir í umsögn sinni við frumvarp fjármálaráðherra um stöðugleikaskatt að hvorki slitastjórn né kröfuhafar ráði eða geti haft áhrif á dagskrá dómstóla. Það sé ekki á þeirra valdi að stýra þeim tíma sem það tekur að ljúka nauðasamningi.

Samkvæmt haftaáætlun ríkisstjórnarinnar munu þau fjármálafyrirtæki, sem þegar eru í slitameðferð og munu ljúka þeim með samþykktum nauðasamningi fyrir 31. desember 2015, ekki þurfa að greiða fyrirhugaðan stöðugleikaskatt.

Tekið er fram í umsögninni að hún feli ekki í sér viðurkenningu á lögmæti slíkrar skattlagningar.

Í umsögn slitastjórnarinnar er bent á að til að ljúka nauðasamningsferlinu sé nauðsynlegt að inna af hendi þá greiðslu sem frumvarpið kveður á um, svokallað stöðugleikaframlag, en áður en að því kemur þurfi nauðasamningurinn að hljóta staðfestingu héraðsdóms.

„Vert að benda nefndinni á að hvorki slitastjóm né kröfuhafar ráða eða geta haft áhrif á dagskrá dómstóla. Þar af leiðandi getur komið upp sú staða að nauðasamningur hljóti ekki staðfestingu innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um þrátt fyrir að slitastjóm, viðkomandi fjármálafyrirtæki í slitameðferð og kröfuhafar þess hafa gripið til allra þeirra ráðstafana sem í þeirra valdi stendur til þess að júka nauðasamningsumleitunum, þar með talið að leggja fram frumvarp að nauðasamningi og halda kröfuhafafund til að kjósa um frumvarpið, vel fyrir þessi tímamörk.

Jafnvel þótt héraðsdómur staðfesti nauðasamning fyrir 31. desember 2015 getur þeim úrskurði verði skotið til Hæstaréttar Íslands. Það er ekki á valdir slitastjóma eða kröfuhafa að stýra slíku ferli né þeim tíma sem það tekur,“ segir í umsögninni.

Þar að auki muni þurfa að fara fram mat á efnahagslegum áhrifum frumvarps að nauðasamningi og áhrifum þess á stöðugleika í gengis- og peningamálum og á fjármálastöðugleika. Skal það mat fylgja beiðni um staðfestingu nauðasamnings.

„Líkt og með framangreint staðfestingarferli nauðasamninga fellur þetta mat Seðlabanka Íslands utan valdsviðs slitastjórna og kröfuhafa og er þeim því ómögulegt að stýra tímalengd ferlisins,“ segir í umsögninni.

Leggja til breytingar

Leggur slitastjórn Glitnis því til að breytingar verði gerðar á undanþágu skattskyldu samkvæmt fyrirhuguðum stöðugleikaskatti þannig að hún nái einnig til þeirra fjármálafyrirtækja sem gripið hafa til allra þeirra ráðstafana sem eru á þeirra valdi til að ljúka nauðasamningsferlinu fyrir 31. desember 2015, að því gefnu að endanleg staðfesting dómstóla á nauðasamningnum fáist, en þrátt fyrir að slík staðfesting hafi ekki borist fyrir 31. desember 2015.

„Þær ráðstafanir sem viðkomandi fjármálafyrirtæki þarf að hafa gripið til fyrir áðurnefnt tímamark til þess að falla undir undanþágu frá skattskyldu án þess að endanleg staðfesting nauðasamnings liggi fyrir eru (i) að afla samþykkis frumvarps að nauðasamningi frá tilskildum meirihluta kröfuhafa, á kröfuhafafundi þar sem greidd eru atkvæði um frumvarpið og (ii) leggja fram beiðni til héraðsdóms um staðfestingu nauðsamningsins, að því gefnu að mat Seðlabankans á áhrifum hans liggi fyrir innan tímamarkanna,“ segir jafnframt í umsögninni.

Umsögn slitastjórnar Glitnis

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynntu haftaáætlun …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kynntu haftaáætlun ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert