„Snjór enn upp á þakbrún“

Björgunarmaður veitir ferðamönnum aðstoð á hálendinu.
Björgunarmaður veitir ferðamönnum aðstoð á hálendinu. mbl.is/Landsbjörg

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar munu á næstunni senda fyrstu hópana af stað til fjalla í tengslum við hálendisvaktina. Munu fjórir hópar dvelja á þremur stöðum á hálendinu til aðstoðar ferðamönnum og vera til taks ef slys ber að höndum.

„Stefnt er að því að leggja af stað 3. júlí næstkomandi en það ræðst nú svolítið af færðinni hvort það tekst,“ segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, í samtali við mbl.is og bendir á að víða sé enn mjög snjóþungt á hálendi landsins og flestar leiðir því ófærar sökum þess.

„Hálendið er að mestu lokað en Vegagerðin er þó nokkuð vongóð um að búið verði að opna inn á svæðið norðan Vatnajökuls [þegar fyrstu hópar björgunarmanna leggja af stað]. En það er óvíst með aðra staði,“ segir Jónas.

Snjór og krapi um allt

Búið er nú að opna inn á Landmannalaugar fyrir ferðaþjónustuaðila á breyttum farartækjum að sögn Jónasar. Aðspurður segir hann hálendið hafa verið lokað óvenjulengi í ár. „Þetta er alveg skelfilegt. Ég held að stór hluti hálendisins sé alveg mánuð á eftir áætlun.“

Jónas segir nokkra úr röðum björgunarsveita hafa sótt ákveðin svæði á hálendinu heim að undanförnu til þess að kanna aðstæður. Samkvæmt þeim er víða ill ferðafært og krapi og snjór mjög áberandi. „Það er töluvert af stórum sköflum enn eftir í Landmannalaugum. Uppi í Hrafntinnuskeri, sem er fyrsti áfangastaður margra sem ætla að ganga Laugaveginn, er snjór enn upp á þakbrún.“

96 verkefni á 60 dögum

Hálendisvaktin er skipulögð þannig að björgunarsveitir taka að sér að vakta ákveðin svæði og verða björgunarmenn staðsettir á þremur póstum, þ.e. í Nýjadal á Sprengisandi, í Landmannalaugum að Fjallabaki og í Dreka norðan Vatnajökuls þar sem tveir hópar björgunarmanna verða staðsettir, en þar er reiknað með miklum fjölda ferðamanna.

Liðsmenn björgunarsveita sem sinna eftirliti á hálendinu hafa að undanförnu haft í nógu að snúast. Árið 2013 sinntu þeir um 50 slysum en í fyrra voru verkefnin alls 96 talsins á 60 dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert