Myndbandið ekki úr öryggismyndavél

Facebook síða leigubílstjóra hefur verið talsvert í umræðunni í dag …
Facebook síða leigubílstjóra hefur verið talsvert í umræðunni í dag eftir umfjöllun þess efnis að þar hafi verið birtar myndir af farþegum. mbl.is/Jim Smart

Það myndband sem birt var á Facebook síðu leigubílstjóra var ekki úr öryggismyndavél, heldur var um að ræða upptöku sem leigubílstjóri tók í svokölluðum skutlubíl. Slíkir bílar eru á vegum einstaklinga sem ekki eru skráðir og óskar fólk eftir fari í gegnum Facebook-hóp skutlara.

Leigubílstjórahópnum hefur nú verið lokað, en annar af stjórnendum hópsins segir í samtali við mbl.is að það sé einnig ranglega skilið að myndirnar sem hafi birst á síðunni hafi verið teknar úr öryggiskerfum bílanna. Segir hann að um sé að ræða myndir af fólki sem hafi ítrekað verið að stinga leigubílstjóra af og ekki greitt fyrir fargjaldið. Hópurinn hafi meðal annars verið til að sýna öðrum bílstjórum hverjir þessir einstaklingar væru svo hægt væri að varast þá.

Megintilgangur hópsins var þó að gefa bílstjórum og afleysingabílstjórum kostur á að ná sambandi vegna afleysingaaksturs og mest af því efni sem kom inn á hópinn var vegna þess.

Sagði stjórnandinn að hann væri með þessu ekki að afsaka sig og að myndbirtingarnar hefðu væntanlega verið á svig við einhvern persónuverndarlög. Hann tekur þó fram að þær myndir sem hann hafi séð hafi allar verið teknar af bílstjórunum sjálfum, t.d. þegar fólk var að fara úr bílum án þess að borga, en ekki úr öryggiskerfi bílanna.

Segir hann að eftir á að hyggja hefði ekki átt að leyfa þessar myndbirtingar, en síðan hafi nú verið tekin niður og allt efni á henni sé þar með ekki aðgengilegt lengur.

Frétt mbl.is: Skiptast á upplýsingum um farþega

Frétt mbl.is: Ekki rétt að birta myndir úr bílum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert