„Planið hans örugglega að rota Gunna“

Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson. mbl.is/Árni Torfason

„Brandon Thatch er „striker“ eins og maður kallar það,“ segir Pétur Marinó Jónsson, ritstjóri vefsíðunnar MMA fréttir. Gunnar Nelson mætir Thatch í Vegas laugardaginn 11. júlí. Gunnar berst í aðalbardaga númer tvö á UFC 189, og hefst bardaginn ekki fyrr en um tvöleytið aðfaranótt sunnudagsins 12. júlí.

„Striker“ er bardagamaður hvers styrkur liggur í höggum og spörkum, og leggur áherslu á þung högg til að rota andstæðinginn. „Hann er besti striker sem Gunnar hefur mætt, það er alveg á hreinu. Hann hefur sigrað 11 bardaga, alla í fyrstu lotu, þar af sjö með rothöggi.“ Hann hefur hins vegar tapað tveimur bardögum, öðrum bardaganum á stigum en hinum á uppgjafartaki í fjórðu lotu af fimm. Bardagi Gunnars við Thatch verður hins vegar þrjár lotur.

Erfitt fyrir Gunna að taka Thatch niður

„Það var aðalbardagi kvöldsins gegn fyrrum léttvigtarmeistaranum, sem færði sig upp um þyngdarflokk. Hann var í miklum erfiðleikum með að taka Thatch niður þangað til í fjórðu lotu þegar hann var farinn að þreytast,“ segir Pétur. „Það verður erfitt fyrir Gunna að taka Thatch niður. Hann er mjög stóri, 188 sentímetrar á hæð og er að skera niður mikla þyngd,“ segir Pétur Marinó. Það þýðir að þegar Thatch mætir Gunnari í búrinu verður hann töluvert þyngri en hann var þegar hann verður vigtaður, daginn fyrir bardagann.

„Svo sér maður hvað hann er hraustlegur, þannig að hann verður stærri og þyngri en Gunni, eins og reyndar allir. Gunni er einn sá minnsti í flokknum. Thatch er hins vegar örugglega búinn að vinna mjög mikið í glímunni. Stærsti styrkleikurinn hjá Gunnari, glíman, er stærsti veikleikinn hjá Thatch,“ segir Pétur.

Gunnar Nelson er snöggur

Thatch er líka með mjög langan faðm, sem þýðir að hann getur haldið Gunnari frá sér í bardaganum. „Gunni er náttúrlega svo snöggur, ég held hann geti verið snöggur inn og tekið hann niður þannig. En þetta verður erfitt og gæti verið hættulegt að fara inn. Þá gæti hann til dæmis fengið hné í andlitið, Thatch er með mjög góð hnéspörk og hefur sigrað báða UFC bardaga sína með hnéspörkum.“

Pétur segir ekki hægt að bera saman bardaga Gunnars við Rick Story, þar sem Gunnar tapaði, og bardagann við Thatch 11. júlí. „Þetta eru mjög ólíkir andstæðingar. Story er meira glímumaður sem pressar á meðan Thatch er meira stór og höggþungur striker. Þeir eru ólíkir, en ég er viss um að Thatch eigi eftir að horfa á þann bardaga og hugsa „svona gæti ég unnið Gunna.“ Planið hans er samt örugglega að rota Gunna,“ segir Pétur.

Pétur Marinó Jónsson.
Pétur Marinó Jónsson.
Brandon Thatch.
Brandon Thatch. Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert