Börn ekki nógu vel tryggð?

Stúlkan hlaut djúpan 2. stigs bruna á stórum hluta hægri …
Stúlkan hlaut djúpan 2. stigs bruna á stórum hluta hægri fótar. ljósmynd/Bryndís Erlingsdóttir

Mikil umræða hefur skapast í kjölfar fréttar sem birtist á fimmtudag um tveggja ára gamla stúlku sem slasaðist þegar heitt vatn helltist yfir hana er hún var í umsjá dagmóður. Hafa margir velt því fyrir sér hvernig börn sín eru tryggð, en Bryndís Erlingsdóttir, móðir stúlkunnar, segir að stór­lega þurfi að bæta trygg­ing­ar og ör­yggi hjá dag­for­eldr­um. Fjöl­skyld­an hef­ur eng­ar miska­bæt­ur fengið frá því slysið varð í febrúar á þessu ári. 

Í reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum, sem gefin var út af velferðarráðuneytinu, kemur fram að dagforeldri skuli vera með slysatryggingu og er það í flestum tilfellum eina tryggingin sem dagforeldrar hafa. Var það tilfellið þegar litla stúlkan slasaðist, en með slíkri tryggingu eru börn aðeins tryggð fyrir örorku eða dauða. Til að dekka slys af þessu tagi þurfa dagforeldrar að kaupa sérstaka ábyrgðatryggingu, en engin ákvæði eru um slíka tryggingu í reglugerðinni og hún er yfirleitt ekki inni í tryggingapakka sem samtök dagforeldra víða um land útbúa fyrir dagforeldra viðkomandi sveitarfélags.

Reglugerðin ekki nægilega skýr

Skilyrðin til þess að gerast dagforeldri samkvæmt reglugerðinni eru þau að hafa náð 20 ára aldri, hafa setið sérstakt námskeið, vera ekki með neinn sjúkdóm sem hindrað geti barnagæsluna, umsögn frá síðasta vinnuveitanda og hreint sakavottorð. Þá skulu húsakynnin uppfylla ákvæði reglugerðar um hollustusvæði og stærð rýmis vera eftir ákveðnum reglum. Þá þarf að liggja fyrir skoðun eldvarnaeftirlits á brunavörnum heimilisins ásamt því að lóð, leiktæki og leikföng skulu uppfylla ákvæði reglugerðar um hollustuhætti og öryggi leikfanga.

„Auk framangreindra skilyrða skal dagforeldri kaupa slysatryggingu vegna barnanna innan mánaðar frá því leyfi var veitt og framvísa staðfestingu þar að lútandi til umsjónaraðila,“ segir í reglugerðinni. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, þar sem slysið varð, segir sveitarfélög í raun ekki hafa heimild til að fara fram á viðbótarskilyrði við reglugerðina, sem vel megi vera skýrari.

„Það kemur hvergi fram hvað þessi slysatrygging eigi að bæta, en í skilmálum sem ég hef séð um þessar tryggingar er yfirleitt aðeins verið að greiða bætur ef það verður örorka eða það þarf að greiða dánarbætur,“ segir hún. „Ég veit ekki hvað var haft til hliðsjónar þegar þessi reglugerð var unnin eða hvort hugsað hafi verið að slysatryggingin ætti að innihalda eitthvað annað en þetta.“

Geta keypt aukatryggingar

Dagforeldrar starfa sem sjálfstæðir atvinnurekendur, en þurfa að fá leyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi til að fá að starfa. Sveitarfélagið er skyldugt til að fara eftir reglugerðinni, en félög dagforeldra á hverjum stað eða dagforeldrarnir sjálfir geta eins og áður sagði keypt tryggingar umfram þetta. 

Sigrún Edda Lövdal, formaður Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík, segir að þetta sé raunin hjá félagsmönnum Barnsins. „Þetta er ábyrgðatrygging svo ef sambærilegt slys myndi gerast hjá dagforeldri í félagi Barnsins í Reykjavík er dagforeldrið tryggt ef til bótaskyldu kemur. Þetta er ekki skyldutrygging en við kaupum hana fyrir okkar félagsmenn til að tryggja gagnvart þriðja aðila.

Sigrún segir reglugerðina, sem er frá árinu 2005, að vissu leyti vera barn síns tíma en bendir þó á að sveitarfélögin megi einnig vera virkari í að kalla eftir því hvernig tryggingamálum er háttað hjá dagforeldrum. Þá bendir hún foreldrum á að kynna sér það hvernig tryggingamálum er háttað hjá dagforeldrum, í leikskólum eða grunnskólum barna sinna. „Við tryggjum ekki eftir á og það er mikilvægt að börnin okkar, sem eru það dýrmætasta sem við eigum, séu vel tryggð.“

Börn ekki sérstaklega vel tryggð

Ásta bendir einnig á þetta, en segir foreldra oft ekki átta sig á því hvernig börn sín eru tryggð. „Ég held að almennt séu börn ekkert sérstaklega vel tryggð, sérstaklega ef það verður alvarlegt slys,“ segir hún. „Ef barn slasast til dæmis alvarlega og verður öryrki svo það getur ekki stundað vinnu fær það mjög litlar bætur í framtíðinni til framfærslu því það eru engar tekjur til grundvallar,“ segir hún og bætir við að þegar fullorðnir slasist sé litið til launa þeirra síðustu árin fyrir slysið til að meta bæturnar. Ef börn slasist séu hins vegar engar tekjur og því fái þau aðeins lágmarksbætur. „Þetta er eitthvað sem þarf kannski bara að hugsa upp á nýtt.“

Kristrún Ásgeirsdóttir hjá Samtökum dagforeldra á Suðurlandi segir að foreldrar séu nú fyrst að átta sig á því hversu lítið börn þeirra eru tryggð. Sá tryggingapakki sem samtökin hafi útbúið fyrir dagforeldra hafi aðeins innihaldið slysatryggingu, en upphæðin sem fáist sé lág og taki ekki tillit til vinnutaps foreldranna sem af slysi sem þessu geti hlotist.

Dekka ekki allar gerðir slysa og veikinda

Ásta bendir á ýmsa staði í kerfinu þar sem fjallað er um bætur sem tengjast börnum; heimilistryggingar veiti yfirleitt bætur vegna slysa barna, sjúkratryggingakerfið geri það að verkum að foreldrar með börn á sjúkrahúsi þurfi ekki að borga mikið og þá sé fjallað um réttindi barna í veikindum eða slysum í kjarasamningum. „Þetta er á nokkrum stöðum í kerfinu en það virðist ekki vera nein heildarhugsun í því eða hvort verið sé að dekka allar gerðir slysa og veikinda,“ útskýrir hún.

Í viðtali við mbl.is í gær sagði Bryndís hins vegar að heimilistrygging fjölskyldunnar hefði ekki nægt í þeirra tilfelli. „Við erum með fjöl­skyldu- og inn­bús­trygg­ingu en það er orðið þannig í dag að þú þarft sér­stak­lega að tryggja barnið þitt, eins og það heyri ekki und­ir fjöl­skyld­una. Fyr­ir mér er það fá­rán­legt.“

Frétt mbl.is: Engar miskabætur eftir bruna barns

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar. mbl.is
mbl.is/Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert