Hætti að tala sem „gamaldags flokkur“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segist hafa hugsað með sér eftir landsfund flokksins í mars, þegar hann vann formannskjörið gegn Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur með aðeins einu atkvæði, hvort hann gæti með einhverjum hætti fengið skýrara umboð.

Hann langaði að finna leið til að kalla fram allsherjaratkvæðagreiðslu meðal allra flokksmanna. Það hefði hins vegar ekki verið hægt.

„Ég vildi fá að leggja verk mín og hugmyndir í dóm allra flokksmanna, eins og þegar ég var kjörinn formaður fyrst á sínum tíma,“ sagði hann í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Lög Samfylkinarinnar væru hins vegar ansi stíf og því hefði ekki verið hægt að boða til slíkrar atkvæðagreiðslu.

„Ég gat ekki óskað eftir allsherjaratkvæðagreiðslu til að fá skýrara umboð. Það verður að bíða formannskjörs sem getur ekki farið fram fyrr en eftir tvö ár, 2017,“ sagði hann og bætti við að hann myndi sækja styrk og stuðning til þess að halda áfram að berjast við að koma Samfylkingunni út úr þeirri erfiðu stöðu sem hún væri í.

Hann sagði að í huga fólks væri Samfylkingin einn af fjórflokkunum, sem hún væri þó alls ekki. Flokkurinn hefði verið stofnaður á sínum tíma til höfuðs fjórflokkunum.

Hann viðurkenndi að hann, og flokkurinn, hefði ekki gert nóg til að „rjúfa þá ímynd í huga fólks að við séum kerfisflokkur“.

Hann nefndi að fylgistap flokksins á umliðnum árum væri áfellisdómur. Þróunin hefði hafist með stofnun Bjartrar framtíðar og haldið síðan áfram. Þegar Björt framtíð fór að tapa fylgi, þá hefði það ekki farið yfir til Samfylkingarinnar, heldur horfði fólk nú til Pírata.

„Og þetta er áfellisdómur yfir Samfylkingunni sem hún verður að bregðast við,“ sagði hann. Flokkurinn þyrfti að „hætta að tala sem gamaldags flokkur og hætta að vinna sem gamaldags flokkur“.

Hann sagði að fólk hefði engan áhuga á því að „hlusta á ræður okkar um eigin ágæti“ eða lesa yfirlýsingar um „hvað við séum æðisleg. Fólk vill samtal og geta haft áhrif á það hvert við séum að stefna, hafa áhrif á einstök stefnumál, og við sem flokkur þurfum að bregðast við því“, sagði hann.

Fólk væri orðið þreytt á hinum „hefðbundnu“ flokkum. Þeim flokkum gengi illa, en það væri sérstakt vandamál ef Samfylkingin væri í þeim hópi. „Hún á ekki að vera í flokki með gömlu kerfisflokkunum.“ Samfylkingin væri umbótahreyfing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert