Vilja að Íslendingar taki við 500 flóttamönnum

Eva Indriðadóttir formaður ungra jafnaðarmanna.
Eva Indriðadóttir formaður ungra jafnaðarmanna.

Stríðið í Sýrlandi hefur kostað hundruð þúsunda manns lífið og drifið milljónir á flótta. Vesturlönd geta ekki setið hjá meðan ein stærsta flóttamannakrísa sögunnar ríður yfir. Ungir jafnaðarmenn hvetja íslensk stjórnvöld til þess að axla ábyrgð og taka á móti 500 sýrlenskum flóttamönnum fyrir lok ársins 2017. Þetta kemur fram í ályktun frá samtökunum.

Yfir 200 þúsund manns hafa látið lífið í stríðinu sem geisað hefur í Sýrlandi frá árinu 2011. Á sama tíma hafa 9 milljónir Sýrlendinga flúið heimili sín. Segir í ályktuninni að um sé að ræða stærsta flóttamannavanda sem heimurinn hefur staðið frammi fyrir frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Heil kynslóð sýrlenskra barna er að alast upp við stríð og ofbeldi, án aðgangs að menntun eða heilbrigðisþjónustu. Þá hafa þúsundir Sýrlendinga lagt leið sína yfir Miðjarðarhafið í leit að betra lífi í Evrópu og margir drukknað á leiðinni.

Segir í ályktuninni að aðgerða sé þörf. Ungir jafnaðarmenn telja óboðlegt að stjórnmálamenn á vesturlöndum sitji með hendur í skauti á meðan þúsundir flóttamanna deyja á hafi úti. Það er skylda Íslands að veita fórnarlömbum vopnaðra átaka skjól. Við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld axli ábyrgð og hefji þegar í stað gerð aðgerðaráætlunar um móttöku á að minnsta kosti 500 sýrlenskum flóttamönnum fyrir lok ársins 2017.

Sýrlensk börn í flóttamannabúðum.
Sýrlensk börn í flóttamannabúðum. AFP
Bab al-Salam flóttamannabúðirnar við landamæri Sýrlands og Tyrklands.Tugir þúsunda flóttamanna …
Bab al-Salam flóttamannabúðirnar við landamæri Sýrlands og Tyrklands.Tugir þúsunda flóttamanna búa þar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert