Varað við hvassvirði á morgun

Varað er við hvassvirði á suðausturlandi á morgun en einnig …
Varað er við hvassvirði á suðausturlandi á morgun en einnig við Breiðafjörð, Faxaflóa og á Norðurlandi vestra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Veðurstofa Íslands varar við hvassvirði á morgun og gæti vindstyrkur á Suðausturlandi farið upp í 25 til 30 metra á sekúndu í hviðum.

„Á morgun er vaxandi norðaustanátt hjá okkur og annað kvöld er komið hvassvirðri á Suðausturlandi. Þá má búast við því að vindhviður við fjöll fari upp í 25 til 30 metra á sekúndu,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Hún segir að hvasst verði jafnframt við Breiðafjörð, Faxaflóa og á Norðurlandi vestra á morgun og má gera ráð fyrir því að vindur fari upp í 18 metra á sekúndu á þeim svæðum. Helga bendir á að þar að leiðandi sé varhugavert að aka með aftanívagna og í húsbílum á þeim slóðum. „Á Suðausturlandi, frá Eyjafjöllum og austan úr er heldur ekki ráðlegt að vera á ferðinni með húsbíla og aftanívagna,“ segir Helga.

Hún bætir við að það muni rigna sunnan- og austanlands annað kvöld en að áfram verði bjart á norðvestur og vesturlandi. Jafnframt verður úrkomulítið fyrir norðan.

„Það er þessi lægð suður í landi, sem veldur norðaustan átt, sem sækir í sig veðrið og nálgast okkur,“ segir Helga. Hvassviðrið ætti að ganga yfir aðfaranótt miðvikudags en þá má búast við rigningu. „Þessi skil ganga inn á landið aðra nótt og þá má búast við rigningu víða um land en það dregur smám saman úr vindi bakvið skilin. En það má búast við rigningu í flestum landshlutum á miðvikudag.“

HÉR má fylgjast með veðrinu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert