Vildi þyrlupall í sumarhúsahverfi

Fimm stjörnu gisting og þyrlupallur í sumarhúsahverfi er ekki fýsilegur …
Fimm stjörnu gisting og þyrlupallur í sumarhúsahverfi er ekki fýsilegur kostur í augum allra Sverrir Vilhelmsson

Eigandi tæplega fimm hundruð fermetra sumarhúss við Miðengi í Grímsnesi kannaði fyrr á þessu ári hvort honum væri heimilt að stækka húsnæðið enn frekar og smíða þyrlupall á lóðinni. Vildi hann leigja húsið út og bjóða upp á fimm stjörnu gistingu. Sendi hann fyrirspurn til Grímsness- og Grafningshrepps vegna málsins en hreppnum hefur ekki borist formlegt erindi vegna málsins.

Í fundargerð sveitarstjórnar hreppsins frá 18. febrúar á þessu ári er ekki tekið vel í beiðni mannsins að öllu leyti en hún hafði áður verið tekið fyrir í skipulags- og byggingarráði. Til að mynda kom fram að ekki yrði fallist á byggingu þyrlupalls í miðju frístundahúsahverfi vegna mögulegs ónæðis fyrir nágranna.

Á aðalfundi Félags sumarbústaðaeigenda við fimmtu braut við Miðengi í Grímsnesi hinn 15. apríl síðastliðinn var aftur á móti samþykkt samhljóða að mótmæla harðlega „fyrirhuguðum áformum um breytingar“ á lóðinni, jafnvel þó að þá lægi ljóst fyrir að þá hefði ekki verið beðið um leyfi fyrir framkvæmdir umfram það sem leyfilegt er nú þegar. 

Stjórn félagsins sendi sveitarstjórn hreppsins formlegt mótmælabréf hinn 15. júní síðastliðinn og verður málið tekið fyrir í sveitarstjórn á miðvikudag. 

Lauk aldrei við frágang hússins

Húsið stendur í hefðbundinni sumar- og frístundabyggð á grónu svæði í nágrenni við Álftavatn í Soginu. Hafist var handa við að reisa húsið fyrir tæpum tíu árum en verkinu er enn ólokið. Húsið hefur að mestu staðið óhreyft síðustu ár. Það er fokhelt, búið er að leggja rafmagn og þá er einnig búið að koma hita á húsið.

Óhætt er að segja að eignin stingi dálítið í stúf við aðrar á svæðinu sem flestar eru byggðar úr timbri og tíu til fimmtíu fermetrar að stærð. Húsið sem um ræðir er nær því að vera risavaxið einbýlishús en sumarbústaður og er fasteignamat þess rúmlega 48 milljónir. Stærð lóðarinnar er tæplega 25 þúsund fermetrar. Húsið var sett á sölu árið 2013 og var farið fram á tæpar 140 milljónir fyrir eignina.

Bygging hússins mætti nokkurri andstöðu hjá öðrum eigendum á svæðinu á sínum tíma. Töluvert ónæði þótti stafa af framkvæmdunum og þá var einnig mikið álag á veginn sem liggur um sumarhúsalandið.

Gríðarlegt ónæði yrði af hótelrekstri

Í bréfi sem stjórn félagsins sendi sveitarstjórn Grímsness- og Grafningshrepps segir að um sé að ræða „stækkun á húsinu og fjölgun húsa, byggingarmagn langt umfram deiliskipulag, áform um þyrlupall ásamt breytingum á notkun lóðarinnar úr einkaafnotum í rekstur á starfsmanna-, gisti- eða hótelstarfsemi“.

Þá segir einnig að samkvæmt aðalskipulagi Grímsness- og Grafningshrepps sé fimmta braut frístundabyggð og því ekki leyfilegt að hafa atvinnustarfsemi þar. Deiluskipulagið, sem tók gildi árið 2010, kveður á um að frístundahúsin megi að hámarki vera 500 fermetrar að stærð. Áður en núgildandi deiliskipulag tók gildi máttu húsin aðeins vera fimmtíu fermetrar að stærð.

Óttast sumarhúseigendurnir að gríðarlegt ónæði yrði af hótelrekstri á svæðinu, til að mynda vegna hávaða og umferðar ökutækja. Þá sé vegurinn sem liggur í gegnum sumarhúsahverfið ekki gerður til að þola mikla umferð auk þess sem heita- og kaldavatnslagnir á svæðinu eru ekki nógu öflugar til að anna álagi frá atvinnustarfsemi. Að lokum segir í bréfinu að „glórulaust“ sé að láta sér detta til hugar að hafa þyrlupall í miðri frístundabyggð.

Fallast ekki á þyrlupall en líklega nóg heitt vatn

Í fundargerð sveitarstjórnarinnar frá febrúar á þessu ári segir að lögð hafi verið fram fyrirspurn um hvort heimilt verði að stækka núverandi hús á lóð við fimmtu braut í landi Miðengis þannig að nýtingarhlutfall lóðar verði um 0,07 í stað 0,03 eins og gildandi skipulag gerir ráð fyrir og hvort leyfi þurfi fyrir smíði þyrlupalls. 

Jafnframt er spurt um útleigu húss á lóðinni, hvort nægjanlegt heitt vatn sé á svæðinu auk upplýsinga um frárennslismál.

Í fundargerðinni segir einnig að ekki samræmist ákvæðum gildandi aðalskipulags sveitarfélagsins að gera ráð fyrir hærra nýtingarhlutfalli á frístundahúsalóðum en 0,03 og hefur það ekki verið leyft til þessa. Ekki er fallist á byggingu þyrlupalls inni í miðju frístundahúsahverfi vegna mögulegs ónæðis fyrir nágranna.

Varðandi önnur atriði þá er líklega nóg heitt vatn á svæðinu og væntanlega fengist heimild til að leigja hús á lóðinni á sambærilegan hátt og gildir almennt um útleigu frístundahúsa. Sveitarfélagið sér um tæmingu rotþróa í frístundahúsahverfum en lóðarhafar sjálfir þurfa að sjá um hönnun fráveitukerfis í samráði við heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

Ekki er algengt að sumarhús séu tæpri fimm hundruð fermetrar. …
Ekki er algengt að sumarhús séu tæpri fimm hundruð fermetrar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert