Aldrei fleiri skemmtiskip í höfn

Fimm skemmtiferðaskip liggja nú við bryggju í Reykjavík og hafa þau aldrei verið fleiri á sama tíma. Alls er rúm fyrir 4.775 farþega í skipunum. Að sögn Ágústs Ágústssonar, markaðsstjóra Faxaflóahafna, gengur allt ljómandi vel og nóg er af rútum og leiðsögumönnum fyrir ferðalangana.

Skipin sem um ræðir eru Marco Polo, Hanseatic, Ocean Diamond, Nautica og Celebrity Eclipse. Auk þess að rúma á fimmta þúsund farþega er áhafnir þeirra 2.218 manns samanlagt. Ágúst segir að þó að aldrei hafi fleiri skip legið við bryggju á sama tíma þá hafi fleiri farþegar komið með skemmtiferðaskipum á sama tíma áður. Mest hafi yfir 6.000 ferðamenn komið á sama tíma.

„Ég var að skoða þetta í morgun og þetta gengur allt ljómandi vel. Það er nóg af rútum og nóg af leiðsögumönnum. Svo stoppa þrjú stærstu skipin yfir nótt hjá okkur. Þá hafa farþegarnir morgundaginn líka til að ferðast um. Það dreifir álaginu mikið,“ segir Ágúst.

Met verður slegið í fjölda skemmtiferðaskipa sem koma til Reykjavíkur þetta sumarið en alls hafa 103 skip boðað komu sína með um 100.000 farþega að sögn Ágústs. Farþegafjöldinn er engu að síður minni nú en síðasta sumar þegar rúmlega níutíu skip komu hingað.

„Það eru fleiri smærri skip núna. Þessi leiðangursskip eru að auka komur sínar hingað mjög mikið. Það er út af fyrir sig jákvætt. Það dreifir álaginu og þau koma á mikið fleiri staði á Íslandi en þessi stóru skip sem komast ekki inn á litlu hafnirnar,“ segir Ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert