Almenningssamgöngur verða að vera betri

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Ómar

„Það er margt þarna sem mér líst ágætlega á og margt í þessari framtíðarsýn tel ég að sé nauðsynlegt. Enda sést að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru sammála um þetta,“ segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Samkomulag um Höfuðborgarsvæðið 2040 var undirritað í Höfða í gær en það er stefnumótun um framtíðarsýn á höfuðborgarsvæðinu til næstu 25 ára. 

„Við í Sjálfstæðisflokknum höfum átt okkar fulltrúa í þessari vinnu og það eru þarna ákveðnir þættir sem eru áhugaverðir. Þetta er bara ákveðin framtíðarsýn um að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og tengja höfuðborgarsvæðið betur saman. Það eru þættir sem ég er mjög hlynntur.“

Höfuðborgarsvæðið 2040 er er sam­eig­in­leg stefna Reykja­vík­ur­borg­ar, Kópa­vogs­bæj­ar, Garðabæj­ar, Hafn­ar­fjarðar­kaupstaðar, Seltjarn­ar­nes­bæj­ar, Mos­fells­bæj­ar og Kjós­ar­hrepps um sam­starf, skipu­lags­mál og hag­kvæm­an vöxt höfuðborg­ar­svæðis­ins til árs­ins 2040. Ekki er um að ræða hefðbund­inn skipu­lags­upp­drátt sem sýn­ir ná­kvæma land­notk­un, held­ur stefnu­mót­andi áætl­un.

Halldór er þó ekki ánægður með allt í nýundirrituðu framtíðarskipulagi. „Mér finnst Sundabraut og slíkir þættir ekki nógu sýnilegir í þessu skipulagi og það er greinilega undir áhrifum frá aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Ég er ekki sáttur með hversu lítið er gert úr Sundabraut í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og sat hjá við afgreiðslu þess í borginni.“

Hann telur betri almenningssamgöngur nauðsynlegar á höfuðborgarsvæðinu. „Ef við miðum við að íbúar á höfuðborgarsvæðinu verði 300 þúsund árið 2040 þá er ljóst að almenningssamgöngur verða að vera betri en þær eru í dag. Hver leiðin er, hvort það séu léttlestir eða vagnar sem fara eftir ákveðnum línum, hugsanlega nota rafmagn til þess, það er auðvitað miklu ódýrari útfærsla en að leggja teina og vera með sporvagn eða lest, þá verðum við að skoða það.“

Það verði að skoða málið í þaula. „Mér finnst nauðsynlegt að þetta verði skoðað vegna þess að það er nauðsynlegt að mínu mati að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, algjört lykilatriði. Síðan er spurningin um kostnað og við verðum að velja það sem er hagkvæmast því við erum ekki mörg sem stöndum undir þessu.

Kjarnarnir tengdir með Borgarlínu

Kostnaður á bilinu 40-90 milljarðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert