Minkar meira áberandi í borginni

mbl.is/Kristinn

Fleiri minkar hafa sést nú á höfuðborgarsvæðinu en undanfarin ár. Guðmundur Björnsson, meindýraeyðir segir að stofnarnir séu misstórir milli ára en fleiri ábendingar hafa borist í ár en áður um dýrið í borginni. Minkar eru yfirleitt ekki saman í hópum og því getur fólk verið að sjá sama dýrið oft.

Guðmundur segir að yfir sumarið sé fólk meira á ferðinni og verði því frekar vart við minkinn en áður. „Eins og í Elliðaárdalnum eru veiðimenn að frá morgni til kvölds og fólk að ganga meðfram ánum, því sést minkurinn nánast daglega ef hann er á svæðinu.” Hann segir mikilvægt að fólk tilkynni strax um ferðir minksins verði það hans vart því að hann fer hratt yfir.

Erfitt að fanga minkinn 

Það getur verið erfitt að ná minknum ef hann kemst í grjótkanta meðfram sjónum en þá ferðast hann hratt og kemst langt nánast óséður. „Ef hann stekkur í grjótkantinn hjá Gróttu á Seltjarnarnesi þá getur hann komist nánast óséður alveg niður að Reykjavíkurhöfn og synt þar yfir hafnarkjaftinn og komið út í Laugarnesi.” Þetta gerir meindýraeyðum erfitt fyrir. 

Dýrin eru meira áberandi síðsumars en læðurnar byrja ekki að gjóta fyrr en í byrjun júlí. Þær eru ekki tilbúnar til pörunar nema í þrjár til fjórar vikur á ári og þá verður ekki egglos nema í kjölfar pörunar.

Minkarnir búa í holum í jörðinni jafnt yfir sumarið og veturinn. „Fólk verður bara meira vart við þá yfir sumartímann því þá er það sjálft meira á ferðinni,” segir Guðmundur. Þeir eru hættulausir og þeirra fyrstu viðbrögð við mannfólki eru að hlaupa í burtu. Minkar veiða sér til matar og þeirra helsta fæða er fiskur og fuglar. Þeir eru einnig vel syndir og á milli klónna hafa þeir sundfit.

Guðmundur segir mikilvægt að fólk hringi strax í meindýraeyði ef það verður vart við mink. „Það er erfitt að tækla ábendingar sem berast seint þar sem að minkurinn er svo fljótur yfir.”

Bæði skinnið og fitan notuð

Nú eru um þrjátíu og tvö starfandi minkabú á landinu. Bæði skinnið og fitan af dýrunum er notuð, skinnið í klæðnað en fitan í krem og alls kyns lyf.

Björn Halldórsson formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda segir minkinn algjört skaðræði í náttúrunni og minkabændur lítt hrifna af honum þar. Um 80% villtra minka eru smitaðir ólæknandi veirusjúkdómi sem gerir dýrin minni og ófrjóari. Það myndi því eyðileggja ræktaða stofninn blandist þeir saman. 

Minkur við veiðiá.
Minkur við veiðiá. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert