Farsímagjöld erlendis verða ódýrari

Löggjöfin setur hámark á gagnamagnskostnað og afnemur reikisímtöl.
Löggjöfin setur hámark á gagnamagnskostnað og afnemur reikisímtöl. AFP

Stofnanir Evrópusambandsins samþykktu í gær svonefndan TSM pakka, en það eru breytingarreglur á fjarskiptalöggjöf innan EES-svæðisins og miðar að því að samræma fjarskiptaumhverfi innan Evrópusambandsins. Helstu áhrif fyrir Íslendinga eru þau þegar ferðast er erlendis verður aðeins hægt að rukka á sömu kjörum og gild áskrif heima fyrir segir til um. Þá verður álag vegna netþjónustu fyrir síma takmarkað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póst- og fjarskiptastofnun.

TSM pakkinn svonefndi (Telecoms Single Market) var samþykktur af stofnunum Evrópusambandsins þann 30. júní síðastliðinn. TSM er safn breytingarreglna á fjarskiptalöggjöf innan EES-svæðisins og miðar að enn samræmdara fjarskiptaumhverfi innan Evrópusambandsins og mun hafa áhrif á Íslandi gegnum EES-samninginn. Það sem nú hefur verið samþykkt er efnislegt innihald þessara reglna sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Evrópuþingið og Evrópuráðið hafa unnið að um tveggja ára skeið, en formleg útfærsla þeirra verður gerð í kjölfarið.

Helstu áhrif TSM reglnanna á neytendur verða á sviði reikis og internetnotkunar. Reikisímtöl milli landanna munu heyra sögunni til eftir júní 2017. Það þýðir að þegar íbúar EES svæðisins ferðast innan þess munu þeir geta hringt og tekið á móti símtölum, skeytum og notað gagnamagn á sömu kjörum og gilda á áskrift þeirra heima við, á meðan notkun er innan eðlilegra marka. Útfærsla slíkra notkunarmarka verður unnin nánar í reglunum.

Reikiverð og gagnamagnsverð lækkað um 80-90%

Síðan fyrsta reglugerð um hámarksverð á reiki innan Evrópu tók gildi hafa reikiverð lækkað um 80% og um 90% hvað gagnamagn varðar. Þriðja reglugerð Evrópureikis er nú í gildi og átti að gilda til ársloka 2017, en TSM mun nú taka gildi í stað hennar.

Samkvæmt TSM mun reikiverð innan Evrópu lækka enn frekar í apríl 2016, þar sem einungis verður leyft að setja fimm evrusenta álag á heimaverð vegna reikisímtala sem viðskiptavinur hringir, tvö evrusent má leggja ofan á verð fyrir SMS skeyti og fimm evrusent ofan á hvert MB gagnamagns (umrætt álag er án VSK). Þetta mun verða til umtalsverðrar lækkunar á reikiverðum. Eftir 15. júní 2017 verður ekki leyft að leggja álag á reikinotkun innan EES landanna á meðan notkun er innan eðlilegra marka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert