Hjólar með þorskalifur í töskunni

Ágúst Ásgeirsson er íþróttamaður og blaðamaður í Frakklandi.
Ágúst Ásgeirsson er íþróttamaður og blaðamaður í Frakklandi. Úr einkasafni.

Íþróttamaðurinn og blaðamaðurinn Ágúst Ásgeirsson lagði 626 kílómetra að baki í hjólreiðaralli í Frakklandi um helgina og hefur þar með lokið rúmlega 1.500 kílómetrum í fjórum keppnum á þessu ári.

Þar með hefur hann öðlast nafnbótina ofurhjólari og hefur keppnisrétt í Paris–Brest–Paris keppninni sem haldin er fjórða hvert ár en þar hjóla keppendur 1.200 kílómetra.

Á meðan á keppninni stóð var hitabylgja að leggjast yfir landið og skein sólin óhindrað í 28 stiga hita frá morgni til kvölds.

Löng hefð er fyrir frístundahjólreiðum í landinu og dregur keppni sem þessi að sér keppendur frá löndum víða í heiminum. Stærsta keppnin fer fram þann 16. ágúst en Ágúst hefur ekki ákveðið hvort hann muni nýta sér þátttökuréttinn

400 brekkur á hvorri leið

Hann tók aftur á móti þátt árið 2011 þegar keppnin var haldin síðast. Hann náði þó ekki, líkt og fjórðungur þátttakenda, að ljúka keppni þar sem hann kenndi meins í hálsi.

Ágúst átti ekki langt eftir, aðeins um 200 kílómetra af 1.200. „Nóttin var framundan, maður verður að sýna smá skynsemi,“ segir Ágúst í samtali við mbl.is. 400 brekkur eru á hvorum legg í leiðinni sem er nokkuð krefjandi.

Ágúst segir að uppsafnað klifur á hjólinu um helgina, þ.e. ferð upp halla, hafi verið um fimm kílómetrar á um 600 kílómetra leið. Var hann um 30 klukkustundir á leiðinni, þar af 24 klukkustundir þar sem hann hjólaði. Með í för hafði hann nóg af vatni og samlokur með reyktri, íslenskri þorskalifur. Ágúst fer um á frönsku keppnishjóli úr koltrefjum.

Ágúst tók þátt í Paris–Brest–Paris keppninni árið 2011.
Ágúst tók þátt í Paris–Brest–Paris keppninni árið 2011. Úr einkasafni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert