Vilja spara 900 milljónir

Skuldahlutfall Hafnarfjarðar var 202% í fyrra.
Skuldahlutfall Hafnarfjarðar var 202% í fyrra. mbl.is/Ómar

Vonast er til að mögulegar breytingar á rekstri Hafnarfjarðarbæjar geti létt hann um allt að 900 milljónir króna á ársgrundvelli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum, en ráðgjafafyrirtækin Capacent og R3 hafa undanfarið unnið að úttekt á rekstri bæjarins. Markmiðið er að koma honum á réttan kjöl og stöðva skuldasöfnun, en árið 2014 var skuldahlutfallið 202%. Hæst var það hins vegar 2011 þegar það stóð í 250%.

Fram kemur að tillögurnar feli ekki í sér þjónustuskerðingu til bæjarbúa, heldur sé markmiðið að ná meiri árangri út úr núverandi rekstri. Þá séu lagðar til sjálfsagðar umbætur á borð við að nýta sér í meiri mæli útboðsleiðir við lækkun kostnaðar á þjónustukaupum.

Fram kom í frétt Morgunblaðsins í gær að samið yrði um starfslok við fjórtán starfsmenn bæjarins og fjórtán til viðbótar færðir til í starfi. Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í bænum, sagði m.a. að um valdníðslu af hálfu meirihlutans væri að ræða. „Tillögurnar hafa enga umfjöllun fengið í stjórnkerfi sveitarfélagsins og enga opinbera kynningu hlotið, sem er algjörlega óviðunandi þegar um stjórnkerfisbreytingu er að ræða sem snertir líf og störf fólks,“ sagði Gunnar.

Frétt mbl.is: „Þetta er mjög alvarlegt“

Í fyrradag kom í ljós að lyfjafyrirtækið Actavis hyggst flytja framleiðslu sína úr landi, en þrjú hundruð manns sem starfa í verksmiðju fyrirtæksins í Hafnarfirði koma þannig til með að missa vinnuna eftir tvö ár. Bæjarstjórinn Haraldur L. Haraldsson sagði stöðuna mjög alvarlega í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert