Heillaður af gömlum kirkjugörðum

Óli er ekki alltaf í kirkjugörðum, hér í garðinum heima …
Óli er ekki alltaf í kirkjugörðum, hér í garðinum heima hjá sé mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta byrjaði nú allt á því að fyrir nokkrum árum þegar ég var í veiðitúr þá fletti ég í blaði sem ég fann í veiðikofa og rakst þar á áhugaverða grein eftir Björn Th. Björnsson um járnkrossa, járngrindverk, járnhlið og fleira sem finna má í Hólavallakirkjugarði í Reykjavík. Ég hef alltaf verið hrifinn af svona pottjárni, steyptum grindum fyrir gluggum í útlöndum og öðru slíku og þegar ég kom í bæinn eftir veiðitúrinn, þá gerði ég mér ferð í Hólavallagarðinn.

Mig langaði að skoða þetta allt saman nánar og ég tók með mér myndavélina. Ég fór líka í Kolaportið til að verða mér úti um bókina hans Björns sem heitir Minningamörk í Hólavallagarði. Þegar ég fór að stúdera þennan garð þá komst ég að því að saga garðsins er stórmerkileg,“ segir Ólafur Halldórsson, sem allar götur síðan hefur sætt lagi og gert sér ferð í forna kirkjugarða hvar sem hann ferðast til útlanda og tekið þar ljósmyndir.

Þjóðverjar bræddu kirkjugarðsjárn í hergögn

„Hólavallakirkjugarður er mjög ósnortinn alveg frá því hann var tekinn í notkun árið 1838, sem er óvenjulegt fyrir kirkjugarða í Evrópu frá þeim tíma. Hann er merkilegur vegna þess hversu mikið er af fornum járnhlutum í honum, krossum, grindverkum og öðru, því Þjóðverjar hirtu meira og minna allt járn úr kirkjugörðum þeirra landa sem þeir hertóku í stríðinu, til að bræða og nota í hergögn.“

Óli segir að það hafi verið einstaklega gaman að ganga um Hólavallagarðinn eftir að hann las bók Björns, því þá vissi hann að hverju hann ætti að leita.

„Allskonar merkilegar höggmyndir og styttur er að finna í garðinum, bronsmyndir, Reykjavíkurgrágrýti og fleira. Fallegar lágmyndir eftir Thorvaldsen skreyta líka marga legsteina, en þær eru úr postulíni sem kallast bisquit og vinsælastar þeirra eru tvær myndir, önnur heitir Dagur en hin Nótt,“ segir Óli sem komst yfir slíkar afsteypur hjá Fríðu frænku og hjá antiksala í Kaupmannahöfn.

„Bing og Gröndal og Konunglega postulínsverksmiðjan gerðu þessar litlu afsteypur á sínum tíma, því Thorvaldsen þótti fínn og verkin hans voru stoufstáss.“

Fjölbreyttur gróður og fuglar

Eftir því sem Óli varði meiri tíma í Hólavallagarðinum þá fann hann hversu sérstök stemning er í honum.

„Þarna er einstaklega notalegt og friðsælt. Gróðurinn er líka fjölbreyttur, þarna finnast um 200 mismunandi plöntur og fuglalífið er afar fjölskrúðugt. Í framhaldinu af þessum nývaknaða áhuga á Hólavallagarði, langaði mig að skoða og mynda í gömlum kirkjugörðum í útlöndum. Þegar ég var með félögum mínum í Búdapest fyrir tveimur árum og þeir fóru í baðhús, þá skellti ég mér í kirkjugarð. Þetta var alveg ný upplifun fyrir mig því hann var svo miklu stærri en Hólavallagarðurinn, og höggmyndirnar fleiri og stærri. Þarna voru íburðarmiklar marmarastyttur og vissulega setti svip sinn á garðinn að þarna er önnur trú en hér heima hjá okkur. Kaþólsku trúnni fylgja aðrar táknmyndir og trúarhitinn er mikill.“

Hallir yfir gröfum fólks

Næst lá leið Óla til Barcelona á Spáni, þar sem hann var á ráðstefnu og heimsótti hann tvo gamla kirkjugarða.

„Það virðist rosalega mikið hafa verið lagt í grafskreytingar á nítjándu öldinni. Ég hafði aldrei séð annað eins og í þessum görðum í Barcelona, heilu hallirnar eru þar byggðar yfir grafir fólks. Fólk hefur greinilega verið vel stætt og ekkert til sparað til að gera fjölskyldugrafreitinn sem stærstan og flottastan.“

Óli segir mikið lagt upp úr tjáningu á svipbrigðum líkneskjanna, þau séu sum hver mikil listaverk.

„Andlitin lýsa djúpri sorg og maður skynjar hvernig aðstandendum hefur liðið og þeir hafa fengið frægustu högglistamenn til að höggva út eða byggja minningamerki yfir ættingjana. Sumt af þessu er afar tilkomumikið, það er eins og maður sé kominn inn í þorp. Og stundum eru höggmyndirnar óhugnanlegar, til dæmis af dauðanum í líki beinagrindar að kyssa hraustlegan mann.“

Kettir spóka sig í görðunum

Nýlega fór Óli í söngferðalag með Dómkórnum til Lissabon, en hann er meðlimur í kórnum.

„Ég valdi að fara í kirkjugarð þegar hópurinn fór í skoðunarferð. Þarna kynntist ég einum garðinum enn sem var allt öðruvísi en það sem ég hafði áður séð. Þarna voru beinar götur eftir öllum garðinum og einvörðungu grafhýsi meðfram þeim, öll mjög svipuð. Þetta voru nánast eins og raðhús og sumt afar íburðarmikið,“ segir Óli sem heimsótti líka gamlan kirkjugarð í Prag síðastliðið haust.

„Það er einhver helgi yfir þessum gömlu görðum og ævinlega fáir á ferli í þeim, jafnvel þótt þeir séu inni í miðjum stórborgum. Kettir eru þær lifandi verur sem mest eru á ferðinni í kirkjugörðum. Ég er ekki uptekinn af því hverjir liggja ofan í jörðinni, heldur fegurðinni í því sem er ofan á gröfunum og stemningunni í görðunum,“ segir Óli sem er rétt að byrja, og á marga garða eftir. „Mér hefur verið sagt að gamli garðurinn í París sé magnaður og ég hlakka til að fara þangað. Ég á líka von á að í Róm séu tilkomumiklir kirkjugarðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert