Borgin vill aukinn sveigjanleika milli skólastiga

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Borgarstjóri hefur óskað eftir formlegum viðræðum við Illuga Gunnarsson, menntamálaráðherra um hugmyndir sem tengjast auknum sveigjanleika á milli skólastiga.

Í bréfi sem sent hefur verið til menntamálaráðherra kemur fram að viðræðurnar snúist um þrennt:

  1. Að kanna kosti þess og galla að flytja samræmd próf tíundu bekkja til vors í níundabekk, og gefa þeim nemendum sem það kjósa val um að hefja fyrr nám í framhaldsskóla, að skilgreindum skilyrðum uppfylltum. Útskrift úr grunnskóla geti verið að vori í níunda bekk eða áramót í tíunda bekk, auk hefðbundinnar útskriftar að vori tíunda bekkjar.
  2.  Að hleypt verði af stokkunum verkefni, í borginni í heild eða einstökum hverfum, þar sem nemendum á efstu árum grunnskóla verði gert ennþá auðveldara að ljúka skilgreindum áföngum fyrsta árs í framhaldsskólanámi samhliða námi í níunda og tíunda bekk.
  3. Að efnt verði til viðræðna um rekstur Reykjavíkurborgar á einum eða fleiri framhaldsskólum í tilraunaskyni, til að auka samfellu í námi og vinna að ofangreindum áherslum.

„Hugmyndirnar endurspegla mikla deiglu sem er í umræðu um sveigjanlegri skil á milli skólastiga á vettvangi Reykjavíkurborgar. Skóla- og frístundasvið hefur nýverið gert úttekt á kostum mismunandi leiða í auknum sveigjanleika á mörkum leik- og grunnskóla. Á mörkum þeirra skólastiga hefur sveitarstjórn býsna rúmar heimildir til að bjóða upp á fjölbreyttar lausnir,“ segir í frétt á vef borgarinnar.

„Vænlegast fyrir skólagöngu og menntun nemenda er að flæði milli grunnskóla og framhaldsskóla sé sem átakaminnst og miði að stöðu hvers nemenda. Betri menntun þar sem stöðu, þörfum, óskum og metnaði einstakra nemenda er mætt á einstaklingsmiðaðri hátt gæti komið í veg fyrir brotthvarf nemenda sem finna sig ekki í námi.

Markmið viðræðnanna er nálgast þessi viðfangsefni á nýjan hátt, með áherslu á val einstakra nemenda og aukinn sveigjanleika á öllum skólastigum, en ekki einungis styttingu náms í framhaldsskóla eða námslok við átján ára aldur, sem getur þó átt vel við í mörgum tilvikum,“ segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert