„Með allra lengstu löggjafarþingum“

Þingmenn föðmuðust og kysstust er þeir héldu út í sumarið …
Þingmenn föðmuðust og kysstust er þeir héldu út í sumarið eftir að fundum þingsins var í dag frestað fram á haust. mbl.is/Eggert

Forseti Alþingis hefur frestað fundum þingsins til 8. september og eru þingmenn því komnir í sumarleyfi. Þingið lauk störfum rúmum mánuði á eftir áætlun. „Þetta þing hefur um margt verið sérstakt. Þetta er með allra lengstu löggjafarþingum, hófst 9. september sl. og lýkur nú í dag,“ sagði forseti Alþingis.

Þingið lauk störfum rúmum mánuði á eftir áætlun, en samkvæmt starfsáætlun þingsins átti þingfrestun upphaflega að vera 29. maí sl. Mörg stór mál og hitamál hafa hins vegar tafið þingstörfin.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagði að þingfundir væru orðnir 147 talsins og þingfundadagar 126. Þá hafa fastanefndir þingsins haldið um 600 fundi. Þingfundir, umræður og atkvæðagreiðslur hafa staðið í um 830 klukkutíma.

„Í samanburði við nágrannaþing okkar er þetta miklu meira en þar tíðkast og er það allmikið umhugsunarefni. Almennt má segja að í samanburði við önnur þing sem standa okkur nærri sé fyrirferð starfanna hér í þingsalnum, og þar með umræðurnar, meiri en þar og oft einnig af öðrum toga. Á hinn bóginn er vinnan í nefndum og annars staðar innan þingsins minni,“ sagði Einar.

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert